152. löggjafarþing — 53. fundur,  21. mars 2022.

skerðing strandveiðiheimilda.

[15:59]
Horfa

Þorgrímur Sigmundsson (M):

Herra forseti. Ég fagna opnum hug þegar kemur að því að leita úrlausna í þessu, því að nú heyrir maður mjög reglulega frá fólki sem starfar í þessari grein og óttinn er sannarlega raunverulegur. Samdráttur í heildarkerfinu er væntanlega verndarþátturinn. Þess vegna má kannski segja að vegna þess hve lítill hluti heildarmagnsins eru veiðar í því kerfi sem hér er til umræðu þá gildi kannski síður þessi verndarrök sem við erum alla jafna að fást við í stóra málinu. Í því ljósi spyr ég ráðherra aftur, því að mér fannst þetta — jú, þetta lýsti jú opnum hug og lofaði góðu en það kom kannski ekki alveg það sem þingmanninn langaði að heyra, þ.e. einhver raunveruleg lausn. En það gerist nú svo sem kannski flesta daga í þessum stóli, mestan part dags. Til upplýsingar fyrir ráðherra, ef við tökum bara svæði C: 117 bátar. Hér eru gríðarlega margir aðilar undir, eins og ráðherra vék að í fyrra svari sínu, og þetta er mjög mikilvægt fyrir litlu byggðirnar hringinn í kringum landið.