152. löggjafarþing — 53. fundur,  21. mars 2022.

mótun stefnu í aðdraganda aðgerðaáætlunar í heilbrigðisþjónustu við aldraða til ársins 2030.

418. mál
[17:35]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir afar góða innsýn í fjármagnshlutann af þessu öllu saman sem hún hefur gríðarlega skýra innsýn í. Mér er þetta einmitt hugleikið þegar ég les þessa þingsályktunartillögu af því að þarna erum við ekki einu sinni að tala um aðgerðaáætlun í málefnum aldraðra heldur erum við að tala um mótun stefnu í aðdraganda aðgerðaáætlunar. Það vekur athygli mína, ekki síst vegna þess að í öllum þeim háværu kröfum sem hafa verið á undanförnum árum um aðgerðir í þessum málaflokki, þá er alltaf talað um að það þurfi að fara í heildarskoðun, það þurfi að endurskoða kerfið eins og það leggur sig. Ég ætla að reyna að forðast gífuryrðin en þessi þingsályktunartillaga fyrir mér birtist, sérstaklega í ljósi þess sem þingmaðurinn var að segja, sem froða. Það er ekkert þarna á bak við. Þetta minnir á einhverjar markmiðayfirlýsingar sem voru í tísku í fyrirtækjum fyrir nokkrum árum, þar sem voru valin einhver fimm gildi og annað slíkt. Þetta lýsir sér ekki síst í því að fyrirsagnirnar eru ekki skiljanlegar nema maður lesi áfram, þær hljóma háleitar en það er einhvern veginn ekkert þar á bak við.

En það er ekki það sem mig langar að spyrja hv. þingmann um. Mér er hugleikið loforð þingsins frá því á síðasta kjörtímabili um að fjármagna sálfræðiþjónustu. Þar var gengið enn lengra en að vera með einhverja mótun stefnu í aðdraganda einhvers. Það voru bara sett lög þar sem ákveðin þjónusta átti að vera tryggð. Og þar er ekki einu sinni sett fjármagn. Við gátum ekki fengið fjármagn fyrir því. Það er alveg ljóst að það er ekki til fjármagn. Það er ekki verið að leggja til fjármagn til þess að þetta geti orðið að veruleika sem þó er óljóst hver á að vera í þessari þingsályktunartillögu. Mig langaði að spyrja hv. þingmann hverjar hún telji líkurnar vera á því að þetta verði nokkurn tímann að veruleika.