152. löggjafarþing — 53. fundur,  21. mars 2022.

mótun stefnu í aðdraganda aðgerðaáætlunar í heilbrigðisþjónustu við aldraða til ársins 2030.

418. mál
[17:38]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Ég tel engar líkur á að þetta verði að veruleika miðað við núverandi fjármálastefnu stjórnvalda. Það þarf eitthvað mikið að gerast í fjármálaráðuneytinu til að hægt sé að koma þessu í gegn. Það sem hefur eiginlega verið alvarlegast við þetta ríkisstjórnarsamstarf er að fólk kemur ekki til dyranna eins og það er klætt. Það er ekki sagt við kjósendur að hér sé verið að stunda ákveðna tegund af pólitík, hægri pólitík, þar sem er verið að minnka umsvif ríkissjóðs, draga úr getu sveitarfélaga til að sækja fram, draga úr getu til að fjármagna ákveðna velferðarþjónustu. Í staðinn er verið að gera þetta hálfpartinn í skjóli nætur, ekki talað um þetta og síðan er verið að leggja fram alls konar háleit markmið í óljósum aðgerðaáætlunum og stjórnarsáttmála. Þetta er mjög alvarlegt vegna þess að þá áttar fólk sig ekki á því hvers konar ríkisstjórn það er að kjósa yfir sig. Það er ekki fjármagn fyrir þessari tillögu, þessari aðgerðaáætlun, nema ráðast eigi í mikinn niðurskurð annars staðar. Við höfum hvergi fengið svör um það. Það er ekki hægt að fjármagna þetta allt saman. Það er ekki hægt að reka velferðarsamfélag og draga úr samtryggingunni. Þannig virkar þetta ekki. Þú getur ekki átt bæði. Það sem mér hefur þótt svo alvarlegt við þetta er að það er verið að selja velferðarpólitík sem á að vera í anda norræns velferðarsamfélags. Af hverju lágskattastefnu? Það sést bara undir lok þessa kjörtímabils að það er ekki fjármagn fyrir þessu. Þetta er mjög alvarlegt mál. Eina leiðin til að fjármagna svona aðgerðaáætlun sem segir bara skýrum orðum að það sé verið að ráðast í margra milljarða króna aukaútgjöld er að skera niður einhvers staðar annars staðar. Það hefur hvergi komið fram hvar það verður. En við fáum, hv. þingmaður, kannski að sjá það í fjármálaáætlun sem kemur eftir tíu daga.