152. löggjafarþing — 53. fundur,  21. mars 2022.

mótun stefnu í aðdraganda aðgerðaáætlunar í heilbrigðisþjónustu við aldraða til ársins 2030.

418. mál
[17:40]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið þó að það sé ekki til þess að lina áhyggjur manns af þessari stöðu og ég hafði áhyggjur af þessu áður en hv. þingmaður fór að ræða um hluti sem við sáum kannski ekki fyrir í upphafi þessa þings sem valda því að ákveðinn kostnaður er að koma þarna sjálfkrafa inn, verðbólga og annað sem í raun étur upp það svigrúm sem er til staðar til að fjármagna svona hluti. En hv. þingmaður nefndi að talað væri um 8 milljarða svigrúm til að ráðast í ófyrirséð útgjöld eða annað slíkt. Nú erum við bara að tala um einn málaflokk, eitt ákveðið atriði. Við erum að tala um stóran málaflokk svo sem, hann er kannski ekki lítill en engu að síður einn af mörgum sem þarf að huga að. Þegar við horfum til hluta eins og ég nefndi hérna áðan, sálfræðiþjónustunnar sem var svona gróflega búið að verðmeta upp á milljarða, eitthvað svoleiðis, og það fékkst ekki fjármagn nema fyrir brotabroti af því — þegar búið er að éta upp það svigrúm sem til er og jafnvel meira miðað við það sem þingmaðurinn var að tala um þá velti ég fyrir mér hvaðan sé líklegast að fjármagnið eigi að koma. Hvað er það sem stjórnvöldum gengur til með því að leggja fram áætlun af þessu tagi? Það má kannski gera sér í hugarlund að tilgangurinn sé að skapa einhverja ásýnd þessarar ríkisstjórnar aðra en raunveruleikinn sýnir, en ef maður ætti að leyfa þeim að njóta vafans þá velti ég fyrir mér hvaðan sé líklegast að þessir peningar geti komið.