152. löggjafarþing — 53. fundur,  21. mars 2022.

mótun stefnu í aðdraganda aðgerðaáætlunar í heilbrigðisþjónustu við aldraða til ársins 2030.

418. mál
[17:54]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Mig langar að fara aðeins dýpra í síðasta punktinn sem hv. þingmaður nefndi sem er sá að við virðumst í svo mörgu enda á því að þræta um eitthvað ár eftir ár eftir ár og ekki bara í þessum málum, umönnun aldraðra, við tókum langar ræður hér fyrir nokkrum vikum um samgöngumál og í umræðu um borgarlínu. Hlutir virðast bara endalaust verða að þrætuepli og mér er spurn: Hvernig breytum við þessari hegðun á milli ríkis og sveitarfélaga í þessu tilfelli og bara almennt? Hvernig finnum við leiðirnar til þess að horfa sameiginlega fram á veginn í stað þess að vera alltaf að kasta heitu kartöflunni á milli og komast aldrei að neinni niðurstöðu? Hvað getum við gert sem stjórnmálafólk, sem hæstv. ráðherrar? Hvað getum við gert til að reyna að tryggja að fólkið sem þarf þessa þjónustu sem við erum að þræta um fái að njóta góðs af því í stað þess að við séum endalaust að nota eitthvað sem pólitískt þrætuepli okkar í milli?