152. löggjafarþing — 53. fundur,  21. mars 2022.

mótun stefnu í aðdraganda aðgerðaáætlunar í heilbrigðisþjónustu við aldraða til ársins 2030.

418. mál
[17:58]
Horfa

Ásthildur Lóa Þórsdóttir (Flf):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að verið sé að vinna að stefnu í aðdraganda aðgerðaáætlunar í heilbrigðisþjónustu við aldraða. Ég staldra engu að síður við orðalagið „stefna í aðdraganda aðgerðaáætlunar“ sem hljómar svolítið eins og skipuð sé nefnd til að skipa starfshóp sem eigi að gera úttekt og skila henni til nefndarinnar sem eigi að gera tillögu. En þó að ég átti mig ekki alveg á þessu þá er það fagnaðarefni að verið sé að beina sjónum sérstaklega að heilbrigðisþjónustu aldraðra því að eins og við vitum öll þá er hún ekki boðleg.

Ég sat fund með Samtökum sveitarfélaga á Suðurlandi síðastliðinn föstudag og þar kom fram að staðan hefur stöðugt versnað á undanförnum árum. Með því fororði að ég hafi skráð hjá mér réttar tölur, sem ég held nú samt að mér hafi tekist, voru 48 á biðlista eftir plássi á hjúkrunarheimili árið 2017 á Suðurlandi en núna árið 2022 eru þeir orðnir 65. Það er fjölgun upp á 35%. Nýtt hjúkrunarheimili á að opna Selfossi áður en langt um líður og er það vel. En á móti er dvalarrýmum fækkað, m.a. vegna þess að húsnæði er ekki boðlegt. Það er af hinu góða að sjá til þess að húsnæði sé boðlegt en engu að síður virðist niðurstaðan vera sú að hjúkrunarrýmum fjölgar á kostnað dvalarrýma þannig að í heild sinni er um fækkun að ræða. Að auki er það svo að eingöngu 20 af þeim rýmum sem verða á nýja hjúkrunarheimilinu eru fyrir Suðurlandið en flest rýmin eru ætluð fyrir höfuðborgarsvæðið.

Vandinn er stór á höfuðborgarsvæðinu og nauðsynlegt að bregðast við honum en ég vil þó nefna tvennt í þessu samhengi. Í fyrsta lagi er um einstakling að ræða hvar sem hann býr og því ætti útbýting þessara rýma að byggja á þörf en ekki á því að létta þurfi á biðlistum á einu svæði framar öðru. Í öðru lagi virðist vera um hreppaflutninga að ræða. Þarna á að leysa vanda á einu svæði með því að flytja fólk hreppaflutningum í aðra sveit þar sem viðkomandi hefur kannski engin tengsl, auk þess sem flutningur í aðra sveit veldur því að aðstandendur geta síður heimsótt þannig að gera má ráð fyrir að samskipti við fjölskyldu og vini minnki meira en annars væri. Kannski er þetta betri lausn en engin en hún er engu að síður ekki góð og ber ekki með sér að mikil virðing sé borin fyrir einstaklingum sem finna sig í þessari stöðu á efri árum.

Eitt af því sem mikið er rætt um er að efla heimaþjónustu. Það er gott og gilt enda margir sem vilja það og kjósa að vera eins mikið og lengi heima og unnt er. Það verður þó alltaf að vera val fólksins sjálfs. Ég óttast svolítið að svona lausnir endi í því að vera ódýr og þægileg lausn og það eina sem í raun er í boði, jafnvel þó að fólk myndi frekar vilja og þörfin sé á að það fari inn á hjúkrunarheimili. Það þarf hjúkrunarheimili og algerlega til skammar að ekki sé fyrir löngu byrjað og búið að byggja nokkur slík, þó að ekki væri nema til að mæta þeirri þörf sem blasir við inni á Landspítala þar sem allt of margir aldraðir liggja við oft óviðunandi aðstæður af því að eigi er pláss fyrir þau í gistiheimilinu, svo að vitnað sé í guðspjöllin. Það er ekki pláss fyrir okkur þegar við verðum gömul og veik. Það er hin sorglega staðreynd málsins. Við verðum að koma öllu þessu fólki í viðunandi úrræði, fyrst og fremst sjálfs þess vegna en ekki síður vegna þess að þetta eru dýrustu úrræði landsins og þau eiga að vera fyrir veikt fólk á öllum aldri sem þarf læknisþjónustu núna þegar það þarf á henni að halda. Þetta hefur stundum verið kallað fráflæðisvandi, sem er eitt ljótasta orð sem til er því að enginn vill vera sá eða sú sem skapar vandamál, enda er þetta aldraða fólk ekki vandinn. Þetta er þvert á móti fólkið sem byggði upp landið okkar og á núna skilið bestu mögulega umönnun. Í einu ríkasta landi heims eru þau ekki að fá hana og það er okkur til háborinnar skammar.

Í þriðja kafla tillögunnar er fjallað um starfsfólk og þar stendur, með leyfi forseta:

„Fólkið í forgrunni.

Til að tryggja mönnun heilbrigðisþjónustunnar til lengri tíma og öruggt og gott starfsumhverfi verði stefnumið málaflokksins til ársins 2030 eftirfarandi:

a. Menntun og þjálfun starfsfólks sem veitir öldruðu fólki heilbrigðisþjónustu verði í samræmi við kröfur um gæði þjónustunnar.

b. Samráð við heilbrigðisstéttir um úrvinnslu aðgerða verði tryggt.“

Það þarf að byggja. Á því leikur enginn vafi. En það þarf líka að manna. Eins erfitt og hefur reynst að fá eitthvað byggt þá er það hátíð hjá þeim vanda sem blasir við á móti því að manna hjúkrunarheimili og spítala. Ef ríkisstjórninni er einhver alvara með að gera gangskör í þessum málum þá verða þau að hækka launin hjá hjúkrunarfólki, hjá sjúkraliðum, hjá starfsfólki spítala. Ef þarna gilti lögmál markaðarins um framboð og eftirspurn væru hjúkrunarfræðingar, sjúkraliðar og aðrir heilbrigðisstarfsmenn með hæstu launin á Íslandi því að eftirspurnin eftir þeim er mikið meiri en eftir bankastjórum og forstjórum ríkisstofnana sem fá ofurlaun með blessun ríkisstjórnarinnar. Það er oft varið með því að launin þurfi að vera samkeppnishæf þó að enginn sé að keppa um þessi störf. Ríkisstjórnin virðist yfirleitt hafa mikinn skilning á lögmálum markaðarins þegar um forstjóra er að ræða en þegar eftirspurnin er mikið meiri en framboðið er skilningurinn enginn. Það þarf að gera laun heilbrigðisstarfsfólks samkeppnishæf. Það er ekki nema von að fólk gefist upp. Endalausar aukavaktir og bakvaktir sliga fólk og það gefst á endanum upp. Auk þess hljóta allar þessar yfirvinnugreiðslur að vera dýrari fyrir ríkissjóð en að álag og vaktir séu með eðlilegum hætti.

Já, ég fagna þessari umræðu en betur má ef duga skal. Við þurfum heildstæða stefnu sem tryggir þeim sem byggðu þetta land og á þurfa að halda bestu mögulegu umönnun. Til þess þarf að byggja en einnig að manna. Við verðum að laða heilbrigðisstarfsfólk aftur til starfa því að án þeirra er heilbrigðiskerfið hvorki fugl né fiskur. Þá er það bara ekki neitt. Við þurfum að byrja þar.