152. löggjafarþing — 53. fundur,  21. mars 2022.

mótun stefnu í aðdraganda aðgerðaáætlunar í heilbrigðisþjónustu við aldraða til ársins 2030.

418. mál
[18:09]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Í inngangi að greinargerð þessarar tillögu er bent á þá augljósu stærðfræði í aðstæðunum fram undan að á sama tíma og öldruðum mun fjölga úr 13% upp í næstum 20% þá mun þeim fækka sem veitt geta þjónustuna bara vegna þess að það verða færri einstaklingar á þeim aldri sem eru á vinnumarkaði. Þess vegna er svo ótrúlega skammsýnt að ætla á sama tíma að éta innan úr þeim minnkandi hópi fólks sem getur sinnt heilbrigðisþjónustunni með því einmitt að haga starfskjörum með þeim hætti að 20–30% nýútskrifaðra hjúkrunarfræðinga hverfa bara til annarra starfa fljótlega eftir útskrift. Þá er verið að ýkja áhrif öldrunar þjóðarinnar á þessa stétt þannig að yngstu hjúkrunarfræðingarnir verða hlutfallslega alltaf færri. Hvernig er hægt að tala um að tryggja mönnun og nefna ekkert annað en menntun og þjálfun starfsfólks í svona áætlun? Menntun og þjálfun starfsfólks er jú mikilvæg til að standa vörð um gæði þjónustunnar, eins og er talað um hérna, en menntun og þjálfun starfsfólks fylgja líka, bara í eðlilegu kjaraumhverfi, hærri laun og betri aðstæður. Það er ekkert tekið á þessu. Á þetta var bent í ótal umsögnum á fyrri stigum og verður örugglega gert í umfjöllun nefndarinnar en ráðuneytinu fannst ekki ástæða til að taka á þessu þrátt fyrir að þingið hafi fyrir fjórum árum samþykkt að gera þjóðarátak í að bæta kjör kvennastétta. Hvar eru efndirnar á því?