152. löggjafarþing — 53. fundur,  21. mars 2022.

heilbrigðisþjónusta.

433. mál
[18:41]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 40/2007, um heilbrigðisþjónustu, um stjórn Landspítala. Í sáttmála um ríkisstjórnarsamstarf Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs kemur fram að staða og hlutverk Landspítala sem heilbrigðisstofnunar er mikilvægt. Það er þess vegna mikilvægt að þetta hlutverk verði styrkt. Í þeim tilgangi verði skipuð fagleg stjórn yfir spítalann að norrænni fyrirmynd, það er orðað þannig, virðulegur forseti, í stjórnarsáttmálanum. Þess vegna eru með þessu frumvarpi lagðar til breytingar á lögum um heilbrigðisþjónustu þess efnis að ráðherra skipi sjö manna stjórn á Landspítala. Er stjórninni ætlað að styrkja stjórnun spítalans sem stærstu heilbrigðisstofnunar landsins og tryggja frekari faglegan rekstur spítalans.

Hér er lagt til að stjórnin verði skipuð sjö einstaklingum og tveimur til vara. Ráðherra skipi stjórnina til tveggja ára í senn og skuli einn stjórnarmanna skipaður formaður og annar varaformaður. Þá er lagt til að tveir stjórnarmanna séu fulltrúar starfsmanna. Þeir hafi málfrelsi og tillögurétt á fundum stjórnar en ekki atkvæðisrétt. Enn fremur er lagt til að í stjórninni sitji einstaklingar sem hafi þekkingu á rekstri og áætlanagerð, á heilbrigðisþjónustu og vísindarannsóknum á heilbrigðissviði og menntun heilbrigðisstétta sem og opinberri stjórnsýslu og reglum stjórnsýsluréttar. Þá er lagt til að einfaldur meiri hluti atkvæða þeirra fimm stjórnarmanna sem hafa atkvæðisrétt ráði úrslitum á stjórnarfundum en atkvæði formanns skuli ráða úrslitum ef atkvæði eru jöfn.

Hér er lagt til að stjórn Landspítala, í samráði við forstjóra stofnunarinnar, marki henni langtímastefnu í samræmi við stefnumörkun ráðherra og hlutverk hennar samkvæmt lögum. Stjórninni er ætlað að yfirfara árlega starfsáætlun og ársáætlun skv. 32. gr. laga um opinber fjármál, leggja sjálfstætt mat á þær og þau markmið og mælikvarða sem þar eru sett fram og gera ráðherra grein fyrir mati sínu innan tveggja vikna frá því að ársáætlun hefur verið lögð fyrir ráðherra til samþykktar.

Þá er lagt til að formanni stjórnar verði gert að gera ráðherra reglulega grein fyrir starfsemi stjórnar og stöðu og árangri stofnunarinnar. Formanni er ætlað að gera ráðherra annars vegar grein fyrir þeim meiri háttar eða óvenjulegu ráðstöfunum sem stjórn hefur samþykkt og hins vegar skuli hann gera ráðherra grein fyrir veigamiklum frávikum í rekstri, hvort heldur er rekstrarlegum frávikum eða faglegum.

Enn fremur er lagt til að formaður stjórnar boði til stjórnarfunda og stýri þeim. Gert er ráð fyrir að forstjóri sitji stjórnarfundi nema stjórn ákveði annað í einstökum tilvikum og hefur forstjóri málfrelsi og tillögurétt á stjórnarfundum. Einnig er lagt til að stjórn verði heimilt að boða aðra þá er þýðingu hafa fyrir efni fundar á fundi stjórnarinnar. Jafnframt er lagt til að ráðherra setji stjórninni erindisbréf og ákveði þóknun stjórnarmanna sem greidd verði af rekstrarfé stofnunarinnar.

Í frumvarpi þessu er jafnframt lagt til að forstjóra Landspítala verði gert að bera ráðstafanir sem, miðað við daglegan rekstur, eru mikils háttar eða óvenjulegar í starfsemi stofnunarinnar undir stjórn til samþykktar. Þá er gert ráð fyrir að forstjóri beri eftir sem áður ábyrgð á því að rekstrarútgjöld og rekstrarafkoma stofnunarinnar sé í samræmi við fjárlög og að fjármunir séu nýttir á árangursríkan hátt og er þetta í samræmi við ákvæði 38. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Jafnframt er lagt til að stjórn Landspítala verði forstjóra til aðstoðar við ákvarðanir um önnur veigamikil atriði er varða rekstur stofnunarinnar og starfsemi hennar.

Hér er enn fremur lagt til að ráðherra setji reglugerð þar sem nánar er kveðið á um hlutverk og ábyrgð stjórnar. Þá skuli stjórn setja sér starfsreglur með nánari ákvæðum um starfssvið hennar. Ég vil bara taka það fram hér, virðulegur forseti, að þetta er í samræmi við störf annarra stjórna, til fyllingar lögum oft á tíðum, og ég held að það sé góð viðbót við það sem ég hef áður sagt hér um hlutverk, ábyrgð og starfssvið stjórnarinnar.

Að auki eru lagðar til breytingar á lögum um heilbrigðisþjónustu þess efnis að þegar stjórn starfar við heilbrigðisstofnun skuli bera breytingar á skipuriti undir stjórn til samþykktar áður en slík breyting er kynnt ráðherra. Stjórn beri að leita álits fagráðs þegar það á við og að heilbrigðisráðherra skipi sjö manna notendaráð í heilbrigðisþjónustu samkvæmt tilnefningu frá starfandi sjúklingasamtökum. Hafa skuli samráð við notendaráð til að tryggja að sjónarmið notenda þjónustunnar séu höfð til hliðsjónar við ákvarðanatöku um atriði er varða hagsmuni sjúklinga innan heilbrigðisþjónustunnar.

Með þessu frumvarpi, virðulegi forseti, er lagt til að ráðherra skipi sjö manna stjórn Landspítala. Samsetning stjórnar skv. 1. mgr. er lögð til með það fyrir augum að þar endurspeglist þekking á sviði rekstrar og áætlanagerðar og fagþekkingar á þeim sviðum sem falla undir hlutverk spítalans, þ.e. veitingu heilbrigðisþjónustu, menntun heilbrigðisstétta og vísindarannsóknum á heilbrigðissviði sem og þekkingu á opinberri stjórnsýslu og reglum stjórnsýsluréttar í samræmi við stöðu spítalans sem opinberrar stofnunar. Þá er gert ráð fyrir fulltrúum starfsmanna í stjórn en þeim er ætlað að taka þátt í umræðum og gera tillögur til stjórnar án þess að hafa atkvæðisrétt.

Þessar breytingar hér, sem ég hef tiltekið á lögum um heilbrigðisþjónustu, eru nauðsynlegar til að marka þessari stjórn, sem áform eru um, hlutverk og ábyrgð og formgera í lögum. Það er nauðsynlegt til þess að hún geti orðið að veruleika.

Ég hef þá gert grein fyrir þeim meginatriðum sem að málinu snúa og leyfi mér að leggja til að því verði að lokinni 1. umr. vísað til hv. velferðarnefndar og 2. umr.