152. löggjafarþing — 54. fundur,  22. mars 2022.

störf þingsins.

[13:40]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Í fréttum í gær var talað um Dettifossveg og aðstæður sem þar hafa skapast og mig langar að gera það að umtalsefni hér. Við höfum í gegnum tíðina verið að ræða um að auka millilandaflug um aðra flugvelli en Keflavíkurflugvöll, t.d. á Norðurlandi og Austurlandi. Partur af því er einmitt markaðssetning á Demantshringnum svokallaða sem og auðvitað Dettifossi sérstaklega og Hvítserk. Sú fjárfesting sem við fórum í með gerð Dettifossvegar var auðvitað stór partur af því. Auk þess er gríðarlega mikil uppbygging að eiga sér stað í Öxarfirði, m.a. í fiskeldinu. Þar er verið að margfalda framleiðsluna. Auk þess er Rifós, sem er dótturfyrirtæki Fiskeldis Austfjarða, að reisa seiðaeldisstöð við Kópasker og aðra í Lóni í Kelduhverfi. Það er orðin stór og mikil atvinnustarfsemi þarna sem og auðvitað skólar og annað sem þarf að sinna.

Það sem ég vildi gera að umtalsefni hér er að um þennan veg gildir svokölluð G-regla sem ég tel að við þurfum að horfast í augu við að gengur ekki upp þegar við erum að leggja í slíkar framkvæmdir sem Dettifossvegur er. Bæði er það auðvitað gríðarlegur sparnaður á þjóðvegum landsins þegar þungaflutningarnir geta farið tveggja klukkutíma styttri ferð með farm sinn en ella, auk þess öryggisatriði, sem og auðvitað að við viljum að ferðaþjónustan í hinum dreifðu byggðum sitji við sama borð og hinn gullni hringur sem hér er gjarnan nefndur.

Ég hvet því til þess að Vegagerðin endurskoði þá þjónustu sem þarna er mörkuð sem og til þess að umhverfis- og samgöngunefnd fjalli um þessi mál, hvar við þurfum að hafa áhersluna.