152. löggjafarþing — 54. fundur,  22. mars 2022.

heilbrigðisþjónusta.

433. mál
[15:40]
Horfa

Kolbrún Baldursdóttir (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Gísla Rafni Ólafssyni fyrir sína góðu ræðu. Ég var aðeins farin að hafa áhyggjur framan af, en svo kom hann að því sem mér finnst vera meginmálið og það er rödd fólksins. Ég held að við séum sem betur fer komin þangað að yfirstjórn eða yfirvald sem er í einhverju glerbúri í engum tengslum við fólkið sjálft, þ.e.notendurna sem koma til að þiggja þjónustu — þetta er bara úrelt kerfi. Það þarf að hugsa þetta allt upp á nýtt í svo mörgum stofnunum ríkisins. Nú gildir það að hafa samráð, heyra í fólki og gera kannanir reglulega; að yfirstjórnin gangi um meðal fólksins, bæði starfsmanna og sjúklinga, og tali beint við það. Sú gjá sem verið hefur í samfélagi okkar milli yfirvalds, starfsmanna og fólksins, sem er að koma þarna til að þiggja þjónustuna — þetta er bara liðin tíð eða ætti í það minnsta að vera það. Nú er verið að hugsa um að brúa þetta bil og ég sé fyrir mér stjórn sem er ekki eingöngu skipuð sérfræðingum og gáfumennum með doktorsgráðu, guð má vita hve margar, heldur fólki sem legið hefur í einu af rúmunum, verið sjúklingar. Þarf maður að finna allt á eigin skinni til þess virkilega að skilja? Að sjálfsögðu er ekki hægt að gera kröfu um það, en stundum þarf hreinlega að fara í gegnum þetta ferli til að vita hvernig á að stýra stofnun eins og þessari, þ.e. að vera sjálfur sjúklingur. Öll þekkjum við dæmi um þessa nýju upplifun, þ.e. þegar fólk var sjálft í aðstæðum sem það er síðan kannski að stýra sem yfirmenn.