152. löggjafarþing — 54. fundur,  22. mars 2022.

heilbrigðisþjónusta.

433. mál
[16:15]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Þetta er einmitt kjarni málsins, þ.e. að hlutverk stjórnar í frumvarpinu er ekki nógu skýrt, það er einfaldlega málið — og það að vísa í greinargerð, annars með fína tilvitnun í greinargerð, en þetta er ekkert í lögum. Ef ég tæki sæti í þessari stjórn myndi ég strax horfa á lagatextann og segja: Hvert er hlutverk mitt hérna? Það er allt of óljóst. Það er allt of óljóst. Stjórnin skal í samráði við forstjóra marka stofnuninni langtímastefnu í samræmi við stefnumörkun ráðherra og lög. Það er í raun engin stefnumörkun í gangi. Þetta er einhvers konar stimpilstofnun. Þetta á að veita einhvern faglegan stuðning en það er miklu betra að forstjórinn fái stuðninginn, hann leiti sér ráðgjafar annars staðar frá. Þetta er gott dæmi um það hversu óljóst hlutverk stjórnarinnar er. Og varðandi stjórnina: Í fyrsta lagi, hvar er fyrirmyndin úti í heimi? Og svo tel ég líka mikilvægt að stjórnarmennirnir gætu jafnvel verið erlendis frá og málið innan stjórnar væri þá enska. Þá gætum við fengið aðila að utan til að veita ráðgjöf, til að reka þennan spítala sómasamlega. Við erum eitt ríkasta samfélag heims og við eigum að geta rekið þjóðarsjúkrahúsið af mikilli sæmd. Það hefur okkur ekki tekist. Það mun ekki lagast þó að þetta frumvarp verði að lögum vegna þess að markmiðin eru allt of óljós og hlutverkið er líka óljóst. Ég er í sömu vandræðum með að lesa greinargerðina og lögin og hv. þingmaður.