152. löggjafarþing — 54. fundur,  22. mars 2022.

heilbrigðisþjónusta.

433. mál
[17:40]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf):

Virðulegi forseti. Mig langar að víkja að mjög afmörkuðum þætti sem snertir þetta mál. Ég held að það sé ekki bara brýnt að skipa stjórn yfir spítalann heldur sé líka löngu tímabært að koma upp innri endurskoðun hjá Landspítalanum. Þá er ég að tala um ráðstafanir til að stuðla að hagkvæmni í rekstrinum, stuðla að öryggi fjármuna, áreiðanleika upplýsinga og bara almennt að því að markmiðum starfseminnar sé náð og lögum og reglum fylgt. Nú hefur Ríkisendurskoðun trekk í trekk gert athugasemdir við að enginn innri endurskoðandi skuli vera hjá Landspítala. Auðvitað, þetta er stærsti vinnustaður landsins með hátt í 6.000 starfsmenn. Árlegar fjárveitingar ríkisins til Landspítala er á bilinu 80–90 milljarðar. Fjöldi verkferla alveg gríðarlegur.

Með lögum um opinber fjármál, sem voru sett árið 2015, voru gerðar verulegar breytingar á reglum um reikningsskil ríkisstofnana og m.a. lögfest skylda ríkisaðila til að láta framkvæma innri eftirlit og innri endurskoðun hjá sér. Þetta er 65. gr. laga um opinber fjármál og hún hljóðar svo:

„Forstöðumaður ríkisaðila í A1- og A2-hluta, eða eftir atvikum stjórn, ber ábyrgð á framkvæmd innra eftirlits. Innra eftirlit felur í sér þær reglubundnu aðgerðir og ráðstafanir sem hlutaðeigandi aðili gerir til að stuðla að hagkvæmni rekstrar, öryggi fjármuna, áreiðanleika upplýsinga og almennt að því að markmiðum starfseminnar verði náð og fylgt sé lögum og reglum.

Innri endurskoðun skal framkvæmd hjá ríkisaðilum í [A1- og A2-hluta] 1) á grundvelli reglugerðar sem ráðherra setur, sbr. 67. gr., og í samræmi við alþjóðlega staðla og siðareglur um innri endurskoðun útgefnar af alþjóðasamtökum innri endurskoðenda. Innri endurskoðun felur í sér kerfisbundið, óháð og hlutlægt mat á virkni áhættustýringar, eftirlits og stjórnarhátta hlutaðeigandi aðila. Stjórnandi innri endurskoðunar skal hafa sérþekkingu á sviði innri endurskoðunar.“

Svona hljóðar 65. gr. Svo er sérstaka reglugerðarheimild um innri endurskoðun að finna í 66. gr.

Nú er það þannig að þrátt fyrir að liðin séu meira en sex ár síðan lög um opinber fjármál voru sett þá hefur fjármálaráðherra enn ekki gefið út svona reglugerð. Það er því í rauninni ekki til nein reglugerð og engar samræmdar reglur um það hvernig innri endurskoðun skuli háttað hjá ríkisaðilum. Þetta er svolítið athyglisvert vegna þess að í hvert sinn sem við hér á vettvangi stjórnmálanna og fjölmiðlar benda á vanfjármögnun þá er alltaf einhvern veginn viðkvæðið að það þurfi bara að nýta peningana betur en svo er ekki einu sinni hirt um að setja þessa reglugerð til að tryggja að innri endurskoðun geti farið fram á samræmdan hátt hjá ríkisaðilum. Þetta er mjög bagalegt og það þarf að bæta úr þessu. Mér þætti eðlilegt nú þegar fram kemur frumvarp um stjórn yfir Landspítala að þar væri líka kveðið á um innri endurskoðun hjá Landspítala, þá jafnvel bæði með skipun endurskoðunarnefndar og skipun innri endurskoðanda, til að stuðla að stöðugum umbótum og kerfisbundnu og óháðu eftirliti með starfsemi stofnunarinnar. Það er nefnilega ekki bara skylda okkar að sjá til þess að heilbrigðisþjónustan sé vel fjármögnuð heldur líka að peningarnir sem veittir eru til þjónustunnar nýtist sem allra best.