152. löggjafarþing — 54. fundur,  22. mars 2022.

rafrettur og áfyllingar fyrir rafrettur.

450. mál
[18:39]
Horfa

Hildur Sverrisdóttir (S) (andsvar):

Forseti. Ég þakka ráðherra svörin. Talandi um rannsóknir þá segir einnig í greinargerð frumvarpsins að mikilvægt sé að „bjóða fullorðnu reykingafólki upp á úrval af áhrifaríkum og fullnægjandi valkostum öðrum en reykingum“ og að „bann við bragðefnum grafi undan lýðheilsustefnu frekar en að bæta hana“. Til að svara þessari athugasemd segir í greinargerð, með leyfi forseta, að ekki sé talið að „gengið sé of langt með framangreindum takmörkunum því eingöngu er verið að takmarka bragðefni en ekki er verið að banna innflutning, framleiðslu eða sölu á nikótínvörum og rafrettum“.

Frekari rökstuðning er ekki að finna gagnvart fullorðnu fólki sem notar þessar vörur með ákveðnum bragðefnum, sem sagt: Notið bara eitthvað annað.

Forseti. Þar sem um er að ræða vöru sem verður bönnuð börnum, og það er enginn að gera lítið úr því, leyfi ég mér að velta því upp við hæstv. ráðherra hvar línan verður næst dregin. (Forseti hringir.) Verða áfengir ávaxtadrykkir kannski næst eða jafnvel Bayleys-inn?