152. löggjafarþing — 54. fundur,  22. mars 2022.

rafrettur og áfyllingar fyrir rafrettur.

450. mál
[19:02]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Þorgrími Sigmundssyni fyrir andsvarið. Mér finnst gott að heyra hvað hv. þingmenn segja hér, að þetta sé göfugt markmið. Ég heyri ekki annað en að allir séu sammála um kjarnann sem birtist í markmiðunum með frumvarpinu, bæði er varðar regluverkið utan um að höndla með þessa vöru og eftirlitið með henni, að hún sé í lagi og verið sé að selja það sem sagt er að verið sé að selja, það verði hér íslenskar merkingar á umbúðum sem segi okkur til um alvarleika vörunnar, fylgst sé með því hvaða nikótínmagn sé í vörunum og við séum alveg fyllilega meðvituð um það.

Það er ágæt saga sem hv. þingmaður kemur inn á varðandi það að þessi vara hefur sannarlega nýst mörgum til að komast frá því að neyta tóbaks í öðru samhengi. Það hefur líka verið til umræðu hvort þetta ætti að heyra undir tóbakslög eða hreinlega lyf. Það getur orðið seinni tíma mál en þessi leið var farin með rafrettur og áfyllingar. Ég heyri líka að þetta er umdeildasta atriðið í þessu enda er mjög vandmeðfarið að fara að skilgreina bragðtegundir. Ef við ætlum á annað borð að leyfa mismunandi bragðtegundir (Forseti hringir.) þá tel ég rétt og segi það, virðulegur forseti, að hv. velferðarnefnd skoði það í samhengi við aldurstakmarkið sem verið er að setja vegna þess að ef það gengur eftir þá mun það auðvitað bitna á þeim sem eldri eru. Það er rétt.