152. löggjafarþing — 54. fundur,  22. mars 2022.

rafrettur og áfyllingar fyrir rafrettur.

450. mál
[19:23]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Jú, ég held að það sé nákvæmlega málið, að við eigum að blanda saman góðum forvörnum og fræðslu og að það sé mun virkari leið til að stoppa svona hluti en nokkurn tímann boð og bönn. Það er einfaldlega þannig að þegar eitthvað er bannað verður það eftirsóknarvert og ég þykist vita að margir foreldrar eða aðrir hafi t.d. keypt áfengi fyrir yngri en 20 ára af því að það var bannað og fólk sóttist í áfengið af því að það var bannað. Það hefur líka sýnt sig að þar sem hlutirnir eru ekki bannaðir minnkar oft neyslan á þeim. Við gerðum góða hluti með tóbakið. Við erum eflaust að gera góða hluti með margt annað. Pössum okkur á að fara ekki út í forræðishyggjuna og banna, banna, banna, eins og þeir gera í sumum löndum. Horfum frekar til þess að tala við börnin, gefa þeim réttu ráðin, réttu fyrirmyndirnar frekar en að sekta þau fyrir að gera það sem má ekki eða kaupa það sem má ekki.