152. löggjafarþing — 54. fundur,  22. mars 2022.

rafrettur og áfyllingar fyrir rafrettur.

450. mál
[19:53]
Horfa

Dagbjartur Gunnar Lúðvíksson (V):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér frumvarp hæstv. heilbrigðisráðherra um breytingu á lögum um rafrettur og áfyllingar fyrir rafrettur, þess efnis að bætt verði við víðtækum takmörkunum á innflutningi, sölu og neyslu nikótínpúða. Tilgangurinn og markmiðið er að draga úr neyslu ungmenna á nikótínvörum. Það er góðra gjalda vert. Afstaða mín er þó sú að með frumvarpi þessu sé gengið nokkuð lengra en æskilegt er til að ná því markmiði og í umræðum hér í kvöld, góðum umræðum, hefur verið farið yfir mörg þeirra atriða. Við viljum trúa því svona almennt að við búum við einstaklingsfrelsi svo lengi sem athafnir okkar valda ekki öðrum skaða. Víða er þó stutt í forsjárhyggjuna og viljann til að hafa vit fyrir öðru fullveðja fólki. Ég vil meina að hið margumrædda bann við ávaxtabragði á annars skaðlegum nikótínpúðum falli þar undir. Vert er í því samhengi að minna á að þó svo að nikótínpúðar séu skaðlegir heilsu fólks þá eru þeir ekki jafn skaðlegir og krabbameinsvaldandi reykingar eða tóbakspúðar.

Það er grundvallarmunur á hugmyndafræði forsjárhyggju og hinni sem eðlileg er í samfélagi frjálsra einstaklinga. Eðlileg nálgun er að frelsi sjálfráða fullorðins fólks sé upphafsskrefið, að frelsi til athafna sé almennt en þörfin á lögbundnum takmörkunum sé skoðuð ef líklegt er að tilteknar athafnir valdi öðrum skaða. Og hér eru lykilorðin „öðrum“ og „skaða“. Ef lög eru síðan sett er líka mikilvægt að takmarkanirnar gangi ekki lengra en nauðsynlegt er til að draga úr hættunni. Þegar við ræðum lög eins og þessi þá ganga þau að mínu mati mun lengra en nauðsynlegt er til að draga úr hættu á að sjálfráða einstaklingar viðhafi hina umræddu skaðlegu hegðun. Andstæðan við þessa hugmyndafræði gengur einmitt út á að einstaklingnum sé ekki treystandi. Við fulltrúar í þessum sal og víðar þurfum að standa vörð um frelsi einstaklingsins. Við erum hér, nota bene, að ræða frelsi fullorðins, sjálfráða fólks. Hversu langt má ganga í skerðingum á því til þess að vernda lýðheilsu barna og hvernig væri hægt að bregðast við og vernda þá lýðheilsu með öðrum hætti, með öðrum og vægari aðgerðum?

Ég átti orðastað við hv. þm. Berglindi Ósk Guðmundsdóttur, sem var mjög gagnlegt. Það var frábært að heyra að hún, þingmaður stjórnarmeirihlutans, er á sömu skoðun og ég um frelsi einstaklinga. Það vekur mig til umhugsunar og hún svaraði því reyndar til, í andsvari við hv. þm. Sigmar Guðmundsson, að þingmenn gerðu talsverðan fyrirvara við frumvarp hæstv. ráðherra, líka stjórnarþingmenn. Þá velti ég fyrir mér hversu mikils stuðnings frumvarp hæstv. heilbrigðisráðherra nýtur innan meiri hlutans. Síðan átti ég reyndar líka mjög gott spjall við hæstv. heilbrigðisráðherra um frumvarpið, í andsvörum við ræðu hans áðan, og þar skýrði hann m.a. að hann teldi ekki að lögin ættu að banna notkun nikótínpúða í háskólum landsins. Þó svo að minn skilningur á frumvarpinu sé slíkur að það myndi fela í sér slíkt bann er ég glaður að heyra að vilji ráðherrans er að bæta úr því innan nefndarinnar ef þörf er á. Aftur á móti yrði neysla nikótínpúða með ávaxtabragði bönnuð innan háskólasamfélagsins, líkt og annars staðar á landinu, ef frumvarpið gengi í gegn, sem er ekki jafn mikið fagnaðarefni.

Hæstv. ráðherra nefndi líka að rannsóknir sýni fram á að nikótín hafi áhrif á framheilann sem er að þroskast til 25 ára aldurs. Ég ætla bara að nota þetta tækifæri hér til að halda því fram að fólki yfir 18 ára aldri eigi að vera heimilt að viðhafa hegðun sem hefur áhrif á framheila ef það kýs. Það er bara mín bjargfasta trú. Ég set við þessa fullyrðingu tvo fyrirvara. Annars vegar það að í raun er margt fleira sem hefur áhrif á framheila fólks, t.d. ADHD-lyf, streita, sjónvarpsáhorf, svo að dæmi séu nefnd. Þrátt fyrir það gæti ég ekki stutt hertari takmarkanir í neinu af því. Hinn fyrirvarinn er sá að þó svo að ég styðji rétt fólks á milli 18 og 25 ára til að hafa áhrif á framheilann í sér með notkun nikótíns þá hvet ég engan til þess. Þar komum við kannski að kjarna málsins sem eru forvarnir. Forvarnir skipta öllu máli í samfélagi frjálsra einstaklinga. Fólk getur viðhaft hegðun, atferli, sem skaðar það sjálft en ekki aðra. Þetta er bara grundvallarstoð í samfélagsuppbyggingu og heimspeki vestrænna þjóða frá árinu 1783, á að giska. Það sem ég vil koma inn á í þessu er að forvarnir hafa haft ótrúlega mikil jákvæð áhrif, hafa gert það hvað varðar áfengisneyslu ungmenna, hafa gert það hvað varðar tóbaksneyslu ungmenna. Þó svo að boð og bönn hafi forvarnaáhrif að einhverju marki þá hafa boð og bönn líka þau áhrif að blása út svört viðskipti og hafa gert það hvar sem við lendum í sögunni til að kanna áhrif þess að banna vörur sem fólk vill neyta og þá sérstaklega ávanabindandi vöru. Það er ekkert líklegra til að blása út svarta markaðinn en að banna ávanabindandi vörur.

Ég vildi líka nefna það, varðandi forvarnir, að hræðsluáróður skilar ekki tilskildum árangri, það hefur ítrekað sýnt sig. Það sem skilar árangri er samvinna foreldra og barna, samvera fjölskyldunnar, og stuðningur við fólk sem hefur lent í áföllum, sem er það fólk sem er líklegast til að sýna áhættuhegðun þegar kemur að ávanabindandi efnum. Það er líka eðlilegt í forvarnaskyni að íþróttahreyfingin setji sér skýrar reglur um að þeirra fyrirmyndir og fulltrúar noti ekki nikótínvörur, tóbaksvörur, ef hún vill. Mér finnst það hins vegar ekki vera rök fyrir því að slíkar vörur séu bannaðar, ef þær eru með einhverju tilteknu bragði, á landsvísu. Ég stoppa líka við þessa opnu og rosalega óræðu skilgreiningu á ávaxtabragði. Það sem ég hefði í raun átt að spyrja hæstv. ráðherra út í í andsvörum áðan var: Fellur mynta þar undir? Er mynta bragðtegund sem hæstv. ráðherra sér fyrir sér að verði bönnuð gangi þessi lög óbreytt í gegn? Ég trúi því reyndar ekki að það muni gerast hér eins og þingið er skipað.

Að því sögðu vil ég þakka fyrir mjög líflegar og góðar umræður. Við höfum farið dálítið djúpt í saumana á þessu en þetta er mál sem þarf að ræða vandlega. Ég geri líka fastlega ráð fyrir því að í nefndarvinnunni verði þessi sjónarmið dregin fram og rædd að fullu.