152. löggjafarþing — 54. fundur,  22. mars 2022.

rafrettur og áfyllingar fyrir rafrettur.

450. mál
[20:07]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Aðeins meira um framsal löggjafarvalds, vegna þess að þegar verið er að framselja í þessu frumvarpi skilgreiningu á nammi- og ávaxtabragði í hendur ráðherra er það sami ráðherra og sagði í andsvörum áðan að hann vissi ekkert hvernig ætti að skilgreina þetta. Mér fannst reyndar verulegt umhugsunarefni að heyra það koma fram hjá ráðherranum í ítrekuðum andsvörum að það væri mjög vandmeðfarið að skilgreina, það væri vandasamt að draga línu í sandinn, það væri ekki skýr lína hvaða bragðefni höfðuðu til barna og ungmenna og hver ekki. Treystir ráðherra sér yfir höfuð til að skilgreina í reglugerð með þeirri heimild sem lagt er til að setja í lög hér? Ég fékk það ekki á tilfinninguna eftir að hafa hlustað á andsvör hér fyrr í kvöld.

Þá kemst ég ekki hjá því að nefna annað mál þar sem ráðherra átti erfitt með að skilgreina hluti, þar sem ráðherra fannst svo erfitt að skilgreina hugtakið neysluskammt, að hann ákvað að taka frumvarp um afglæpavæðingu úr umferð og setja í hendur starfshóps að skilgreina neysluskammt vímuefna. Hver er munurinn hér? Hérna stendur ráðherra uppi í pontu og segir bara eins skýrt og ráðherrar geta sagt: Heyrðu, ég bara hef ekki hugmynd um hvernig á að gera þetta. En hann ætlar samt að trukka málinu áfram. Á meðan segist hann í afglæpavæðingarmálinu ekki hafa nógu góða hugmynd um það hvernig eigi að skilgreina neysluskammta og það verður til þess að hann bakkar frá málinu og ákveður að skoða það betur. (Forseti hringir.) Af hverju ætli þessi munur sé á þessum tveimur málum? Af hverju er annað keyrt áfram en hitt saltað?