152. löggjafarþing — 54. fundur,  22. mars 2022.

rafrettur og áfyllingar fyrir rafrettur.

450. mál
[20:27]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V):

Herra forseti. Við ræðum núna þetta frumvarp sem lagt er fram af heilbrigðisráðherra þar sem við erum m.a. að tala um nikótínpúða ásamt fleiru. Það er búið að segja margt í þessari umræðu sem mér hefur þótt hljóma mjög vel. Það sem mér finnst kannski ástæða til að velta vöngum yfir til að byrja með er auðvitað að skoða hvers konar vöru við erum að tala um þegar um nikótínpúða er að ræða. Erum við að tala um mjög hættulega vöru? Nei, hún er ekki mjög hættuleg en hún getur auðvitað verið skaðleg. Hún er minna hættuleg heldur en margar aðrar nikótínvörur þar sem fylgja önnur efni úr tóbaki og þess háttar, við getum talað um gamla snusið, íslenska neftóbakið, sígarettur og vindla og píputóbak og það allt saman. Þetta er auðvitað skaðminna heldur en það. Við hljótum að vera sammála um að þetta sé skaðminna heldur en áfengi. Við myndum væntanlega frekar vilja að unglingurinn okkar væri að nota nikótínpúða heldur en að þamba úr vodkaflösku. Þá vaknar auðvitað spurningin: Af hverju erum við að ganga lengra í þessari löggjöf heldur en við gerum að mörgu leyti með áfengið? Mér finnst þetta eiginlega vera svolítið afhjúpandi spurning þegar kemur að þessu máli. Eins og hefur verið rakið hér í ræðum á undan mér og í andsvörum og öðru þá er auðvitað til alls konar áfengi, það eru til Tópasskot og það eru til alls konar berjavín og kaffilíkjör og guð má vita hvað. Þetta er selt. Það er bannað að selja þetta börnum og unglingum en það er ekki bannað að selja þetta fullorðnu fólki. Þá veltir maður því fyrir sér af hverju við göngum svona langt þegar kemur að nikótínpúðum. Ég fæ ekki séð að það séu nein rök fyrir því að stilla þessu þannig upp, löggjöfinni um þetta, að þetta sé nánast hættulegri vara heldur en t.d. áfengi. Það eru engin rök sem hníga að því. Þess vegna held ég að það megi alveg segja um þetta eins og svo margt annað að leiðin til heljar er vörðuð góðum ásetningi. Ég held að allir séu sammála um það að heilbrigðisráðherra gengur gott eitt til með því að flytja þetta mál og auðvitað er eitt og annað í málinu sem er mjög auðvelt að styðja og þegar við höfum meginmarkmiðið í huga, að vernda heilsu barna okkar og ungmenna, þá erum við auðvitað öll tilbúin til að gera eitt og annað til að ná því markmiði. En við hljótum alltaf að velta fyrir okkur þessari grundvallarspurningu, hvort við séum að ganga lengra heldur en í raun og veru þurfi. Það verður eiginlega að segjast eins og er að eiginlega allt sem sagt hefur verið hérna í umræðunni í dag færir okkur í þá átt að það hlýtur að fara þannig í velferðarnefnd að það verði gerðar verulegar breytingar á þessu.

Í fyrsta lagi nefni ég það sem fleiri hafa nefnt, það er þessi skilgreiningarvandi sem menn lenda í þegar talað er um nammi- og ávaxtabragð. Ég nefndi það í andsvari áðan að ef menn fara inn á vefsíður sem selja t.d. nikótínpúða þá sést þetta svolítið svart á hvítu. Það er verið að stilla upp í vali: Viltu skoða það sem er með berjabragði, viltu skoða það sem er ferskt eða með kaffibragði, lakkrísbragði, myntu, sítrónu? Undir öllu þessu kemur alveg ótrúlega mikið úrval af pakkningum með nikótínpúðum. Þegar maður velur hins vegar flipann „bragðlaust“, sem er eiginlega það eina sem verður eftir ef þetta frumvarp verður óbreytt að lögum, þá koma upp tvær dósir. Ég fæ ekki betur séð en að ef menn ætla að vera svolítið harðir á skilgreiningunni um nammi- og ávaxtabragð og túlka það svona frekar heilsu barna og ungmenna í hag þá séu menn í raun og réttu nánast að banna nikótínpúða alfarið. Það eru ekkert rosalega margar tegundir sem þá verða eftir.

Þetta finnst mér ekki gott. Við hljótum að leita allra leiða til að koma í veg fyrir að börn og ungmenni kaupi þetta. En við hljótum að geta leyft fullorðnu fólki að nota þessar vörur, einkum og sér í lagi vegna þess að það er alveg augljóst að þær hafa heldur betur grafið undan markaðsstöðu mun hættulegri vara eins og við vitum. Þetta er eitt af því sem ég myndi vilja gera alvarlegastar athugasemdir við. Mér finnst mjög brýnt að þetta fari út úr þessu frumvarpi og verði ekki með þegar málið kemur úr velferðarnefnd og ég vona að það verði þannig. Það er gott til þess að vita að stærsti stjórnarflokkurinn hefur gert alvarlega fyrirvara við málið, ekki síst þetta atriði hafi ég skilið umræðuna rétt hérna áðan.

Síðan getum við auðvitað velt fyrir okkur, af því að við erum að tala um þetta sem vöru, þetta er neysluvara: Er þetta hættulegra heldur en orkudrykkir? Sterkir orkudrykkir sem eru til sölu í búðum og fást meira að segja hér í matsal Alþingis? Eru nikótínpúðarnir hættulegri en það? Ég er ekki svo viss. Mér finnst þetta bjóða upp á innra ósamræmi í því hversu langt við ætlum að ganga þegar við veltum fyrir okkur heilsu barna og ungmenna og síðan því hvað er eðlilegt að fullorðið fólk geti gert þegar það velur sér sjálft neysluvörur.

Svo ég árétti það: Það er margt varðandi markmiðin og hugsunina í frumvarpinu sem er gott og ég ætla að gefa hæstv. heilbrigðisráðherra það að honum gengur gott eitt til. En ég gat þó ekki varist þeirri hugsun áðan þegar ég heyrði hæstv. heilbrigðisráðherra svara hér í andsvörum að hann ætti sjálfur svolítið erfitt með þetta skilgreiningarvald sem honum er falið og verður sett í reglugerð samkvæmt þessu frumvarpi. Þetta er nákvæmlega málið. Við erum að búa til einhvers konar regluverk sem verður alveg ótrúlega erfitt og tyrfið að fara í gegnum. Og af hverju ættum við að vera með fólk á launum í ráðuneytinu eða í Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, sem á líka að láta þessi mál til sín taka þegar kemur að því að veita leyfi og samþykkja sölu á þessu, við að velta vöngum yfir því hvort hægt sé að leyfa þetta bragð eða hitt, hvort þetta sé ávaxtabragð eða nammibragð eða hvað? Þetta er löggjöf sem gengur ofur einfaldlega ekki upp. Þess vegna eigum við að hafna þessu.

Síðan vil ég líka í sjálfu sér gera athugasemd við það að það verði óheimilt að hafa á umbúðum þessara vara, t.d. nikótínpúðunum, texta eða myndmál sem geti höfðað sérstaklega til barna og ungmenna, m.a. með myndskreytingu eða slagorðum. Látum þetta liggja með slagorðin, það er ekkert sáluhjálparatriði að menn geti haft þau á, en maður veltir fyrir sér myndskreytingum sem oft eru á dósunum og mönnum finnst þetta kannski ekki vera neitt stórmál og kannski er það ekki neitt, en mér finnst þetta bara svo mikill óþarfi í löggjöfinni. Það er kannski einhver sakleysisleg mynd eins og við sjáum mynd af alls konar hlutum og fyrirbærum á áfengisflöskum. En þetta þykir eitthvað hættulegt börnum og ungmennum. Samt er það þannig að þessi vara má ekki vera til sýnis í venjulegum verslunum þannig að börn og ungmenni geta ekki séð þetta þar. Þessar vörur mega vera til sýnis í sérvöruverslunum þar sem börn og ungmenni eiga ekkert erindi inn vegna þess að þau mega ekki kaupa neitt þar. Það er verið að fara af stað með svoddan óþarfa sem í raun og veru býr bara til ákveðið flækjustig fyrir þá sem eru að selja og flytja inn þessa vöru, sem er ekkert annað en eðlileg vara, neysluvara, þrátt fyrir að við viljum ekki að börn og ungmenni séu að nota hana. Mér finnst að við þurfum að hafa þetta líka í huga.

Mig langar líka að vita aðeins meira um hlutverk Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar í þessu frumvarpi, en í 15. gr. segir:

„Framleiðendur og innflytjendur nikótínvara, rafrettna og áfyllinga fyrir þær sem innihalda nikótín, sem hyggjast setja nikótínvörur, rafrettur eða áfyllingar á markað hér á landi, skulu senda Húsnæðis- og mannvirkjastofnun tilkynningu um slíkt sex mánuðum áður en markaðssetning er fyrirhuguð á rafrettum og áfyllingum fyrir þær en þremur mánuðum áður en markaðssetning er fyrirhuguð á nikótínvörum.“

Mér þætti vænt um að fá frekari útskýringar á því af hverju þetta þarf að vera svona langur tími og af hverju flækjustigið þarf að vera svona mikið í ljósi þess að þetta er vara sem við erum öll ásátt um að megi selja hér á Íslandi og Íslendingar megi nota, séu þeir búnir að ná tilskildum aldri. Mér finnst þetta vera einhvers konar aðgangshindrun fyrir þá sem eru að vinna sér það eitt til skaða að selja þessar vörur eða flytja þær inn. Það væri ágætt að fá betri útskýringu á þessu.

Síðan langar mig að nefna annað sem kemur fram í greinargerðinni þar sem við erum aftur komin að þessum skilgreiningarvanda með bragðið. Þar segir:

„Rannsóknir sýna að bragðefni, sérstaklega nammi- og ávaxtabragð, spili stóran þátt í því hversu vinsælar rafrettur eru meðal barna og ungmenna“ — Það má svo sem benda á að það eru líka til rannsóknir sem sýna þetta ekki. Síðan kemur í framhaldi það sem ég ætla að gera athugasemd við. — „og rök falla til þess að telja að hið sama eigi við um vinsældir nikótínpúða hjá ungmennum.“

Mig langar að vita hversu vel þetta var skoðað. Erum við sjálfkrafa að yfirfæra það sem sumar rannsóknir segja að eigi við um rafrettur yfir á nikótínpúða eða hefur það verið skoðað sérstaklega? Mér finnst skipta máli að fá að vita þetta þegar við erum að ganga svona langt í löggjöf. Þetta skiptir verulegu máli því að ef verið er að selja okkur hugmynd um einhvers konar löggjöf eða ákvæði í lögum á grundvelli þess að það séu einhverjar vísindalegar rannsóknir sem styðja það þá myndi ég vilja heyra meira heldur en þessa yfirfærslu frá rafrettum yfir í nikótínpúðanna með þeim orðum að rök falli til þess. Hvaða rök, hvaða rannsóknir, hvað liggur þarna að baki? Það myndi ég gjarnan vilja fá að vita og vona að þetta verði tekið til skoðunar í velferðarnefnd og við frekari þinglega meðferð málsins í framhaldinu.

Ég vona að þetta mál fái mikla yfirlegu hér í þinginu, í nefndinni, vegna þess að það er mjög brýnt að sníða af því mjög alvarlega vankanta. Og ef hæstv. ráðherra ætlar að tjá sig hér á eftir þá væri ágætt að fá einhverja staðfestingu á þeim skilningi sem mér fannst liggja í orðum hans hérna áðan, að hann teldi það nánast ómögulegt verk að búa til þessar skilgreiningar sem þó er krafist af ráðherra samkvæmt þessu frumvarpi. Og hvort menn hafi eitthvað hugleitt t.d. áhrifin á vöruúrvalið, ef þetta frumvarp fer svona í gegn, hversu mikið yrði þá eftir í hillunum yfir höfuð, af því að það sýnist mér vera eitthvað sem menn þurfi að skoða sérstaklega. Ég hvet þingheim allan til að lúslesa þetta og mynda sér sterka skoðun á þessu og þá einkum og sér í lagi þessari gildru sem lögð er fyrir ráðherrann í frumvarpi hans sjálfs um að hann sjálfur eigi að fara að ákvarða það hvað heyri undir nammibragð og hvað heyri undir ávaxtabragð, hvaða bragð gæti fallið þar fyrir utan og hvað ekki. Og ég árétta það sem ég sagði áðan: Ef undirliggjandi eru rökin um það að við ætlum að standa vörð um lýðheilsu ungmenna þá hljóta menn alltaf að túlka þetta með þeim hætti að það falli fleiri bragðefni eða bragðtegundir þar undir heldur en færri, einfaldlega vegna þess að markmiðið er að vernda heilsu barna og ungmenna. Þannig að mér finnst að hæstv. heilbrigðisráðherra, sem margoft hefur sýnt það í þingsal að hann hlustar og tekur tillit til athugasemda, mætti gera það og bendi honum á það að mér finnst hann svona hálfpartinn vera að búa til gildru fyrir sjálfan sig og finnst hann ekki öfundsverður af þeirri stöðu að þurfa að setja sig og sitt ráðuneyti í þann mikla skilgreiningarvanda að velta því fyrir sér hvað er nammibragð og hvað er ávaxtabragð og hvað getur verið á jaðrinum og hvað fellur þar fyrir utan.