152. löggjafarþing — 54. fundur,  22. mars 2022.

rafrettur og áfyllingar fyrir rafrettur.

450. mál
[20:48]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir þessa hugleiðingu og þessa spurningu. Bannað eða ekki bannað. Í sumum tilfellum erum við einmitt að setja einhvers konar lög sem banna eitthvað og það er eiginlega algjörlega ómögulegt að framfylgja banninu. Ef það er bannað að selja þetta hér, hvort sem er í gegnum innlenda vefverslun eða bara út úr búð, þá erum við komin í þá stöðu að við erum eiginlega hálfpartinn að búa til — hver hefði nú trúað því? — einhvers konar svartan markað með Fox og Loop og allt þetta ágæta stöff, svo ég sletti. Það hugnast mér ekki. Ég var svo sem ekkert að lúslesa þetta beint í samhengi við Evrópusambandið eða neitt slíkt. Ég trúi því bara, svo að ég svari þessu nokkuð almennt, mjög einlæglega að leiðin til þess að ná lýðheilsumarkmiðum sem verið er að stefna að og að setja þennan varnarmúr utan um börn og ungmenni, sé ekki að banna fullorðnu fólki að nota þessar vörur í þeim mæli sem lagt er til í þessu frumvarpi. Og af því að Húsnæðis- og mannvirkjastofnun var nefnd hérna áðan hvet ég alla þingmenn til að lesa það mikla hlutverk sem sú stofnun fær í því að framfylgja þeim lögum sem hér eru. Það er bara ansi mikið þar undir. Það er hægt að setja á stjórnvaldssektir út af alls konar hlutum, talið hér upp í 12 liðum. Það eru lögreglukærur og leyfi og allt mögulegt, dagsektir er hægt að leggja á, allt að 200.000 kr. fyrir hvern dag. Heildaráhrifin sem maður fær af því að skoða þetta frumvarp eru svolítið þau að við séum að tala um margfalt hættulegri og verri vöru en raunin er, því að fyrir fullorðið fólk er þetta neysluvara, vissulega skaðleg eins og súkkulaði getur verið skaðlegt í óhóflegu magni. Þannig að nauðsyn svona strangrar lagasetningar er einhvern veginn langt umfram tilefni, finnst mér.