152. löggjafarþing — 54. fundur,  22. mars 2022.

rafrettur og áfyllingar fyrir rafrettur.

450. mál
[21:25]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta er búin að vera áhugaverð umræða hér í kvöld, margt komið fram og mörgu af því get ég verið sammála en öðru ekki. Hv. þingmaður sem hér talaði sagði eitthvað á þá leið: Gerum það fyrir börnin. Það auðvitað stingur mann að heyra þannig tekið til orða því að ég held að við höfum öll þann vilja, hvert og eitt okkar, að vilja gera allt sem við getum fyrir börnin okkar. Ég held að ég sé bara þar að vilja gera eins mikið og hægt er fyrir börn. En þegar ég horfi á þetta mál finnst mér það einhvern veginn snúast fyrst og fremst um forræðishyggju. Ef við ætlum að ganga þannig áfram veginn að banna allt sem getur verið hættulegt fyrir börn væri samfélagið okkar allt öðruvísi. Ég minnist þess að þegar bjór var leyfður var fullyrt að samfélagið færi á hausinn, á hliðina. Hér yrði allt vaðandi í fylliríi, börn dauðadrukkin. En það fór ekki þannig. Börn þurfa líka að læra, að minni hyggju, að sumt má og sumt má ekki. Mig langar að spyrja hv. þingmann: Á þetta að snúast bara um einhvern lit eða eigum við að ala börnin þannig upp að þau geti þolað að það séu freistingar í kringum þau?