152. löggjafarþing — 54. fundur,  22. mars 2022.

rafrettur og áfyllingar fyrir rafrettur.

450. mál
[21:37]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég er aðeins farin að hugsa hvort það sé kannski ekkert að marka. Við höfum orðið vitni að því að Framsóknarþingmenn og Framsóknarráðherrar fara mikinn bæði í ræðustól og fjölmiðlum og tala út og suður um alls konar sem þau ætli sér að gera en framkvæma ekki hér í þinginu: Veiðigjöld, bankaskatt, gagnrýna heilbrigðiskerfið, gagnrýna jöfnunarsjóð o.s.frv. Sjálfstæðisflokkurinn í ríkisstjórn kemur með einhvers konar fyrirvara, einhverja bókun á stjórnarmál og laumar inn einum þingmanni sem má ræða málin. En annars koma þeir hingað í pontu undir liðnum störf þingsins og fá að tala frá eigin brjósti. Þannig að störf þingsins eru orðin svona vígvöllur stjórnarliða sín á milli en þegar um er að ræða hápólitísk mál sem myndu alla jafna vekja stjórnarliða til umræðu eru þeir allir farnir heim að sofa nema kannski hv. þm. Hildur Sverrisdóttir sem hér situr og mun kannski taka til máls í kvöld.