152. löggjafarþing — 54. fundur,  22. mars 2022.

rafrettur og áfyllingar fyrir rafrettur.

450. mál
[21:40]
Horfa

Hildur Sverrisdóttir (S) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég finn mig bara knúna til að koma hingað upp. Ég veit ekki hvort um einhvern misskilning er að ræða eða hvað. Ég veit ekki betur en að það sé algerlega skýrt, og hafi komið fram hér í dag, að ég var sú fyrsta sem virðingarfyllst kom með mjög alvarlegar athugasemdir við hæstv. ráðherra. Þar sem verið er að hafa áhyggjur af ungum Sjálfstæðismönnum í þingliði Sjálfstæðisflokksins var það einmitt yngsti þingmaður Sjálfstæðisflokksins, Berglind Ósk Guðmundsdóttir, sem var hér fyrr í kvöld með mjög afgerandi og fína ræðu. Það hefur komið fram að þingflokkur Sjálfstæðisflokksins afgreiddi þetta mál úr þingflokki sínum með fyrirvara. Það er bara mjög eðlilegt í stjórnarsamstarfi þar sem ekki eru allir einhuga, enda eðlilegt í lýðræðislegu samtali þegar mál eiga eftir að fara fyrir nefnd og slíkt. Ég ætla bara að leyfa mér að segja að um misskilning sé að ræða frekar en að vísvitandi sé verið að brigsla Sjálfstæðismönnum, okkar ágæta fólki, um að vera ekki að segja okkar skoðun hér.