152. löggjafarþing — 55. fundur,  23. mars 2022.

um fundarstjórn.

[15:22]
Horfa

Þorgrímur Sigmundsson (M):

Herra forseti. Umræðan það sem af er undir þessum dagskrárlið um fundarstjórn forseta hefur farið eins og stundum í þeim lið í eitthvað annað en fundarstjórn forseta. Mig langar hins vegar að taka undir með þeim þingmönnum sem hafa komið og kallað eftir því að forseti beiti sér fyrir því að það fari frekari umræða fram hér í þessum sal um söluna, byggt á því sem hefur komið fram að hér eru allt of margar spurningar sem þarf að svara. Vissulega er, eins og forseti benti á, hæstv. fjármálaráðherra hér til svara í óundirbúnum fyrirspurnum á morgun. Ég hef hins vegar ekki sannfæringu fyrir því að það sé nóg. Ég held að forseti verði að beita sér fyrir því að þetta mál fái sérstakan lið á dagskrá.