Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 55. fundur,  23. mars 2022.

störf þingsins.

[15:26]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V):

Virðulegur forseti. Í frumvarpsdrögum fjármála- og viðskiptaráðherra um heimildir lífeyrissjóða til fjárfestinga erlendis er lagt til að í 15 jafn stórum skrefum, á árunum 2024–2038, verði heimild lífeyrissjóðanna rýmkuð úr 50% í 65%. Margir lífeyrissjóðanna eru nú þegar nálægt þessu fjárfestingarþaki og eru því þvingaðir til að fjárfesta allri sinni auknu fjárfestingarþörf innan lands en sú þörf er metin á vel yfir 400 milljarða á ári.

Í umsögn Landssamtaka lífeyrissjóðanna segir m.a. að ef það verða miklar hömlur á fjárfestingum lífeyrissjóðanna í erlendum gjaldmiðlum sé hætta á að stórir sjóðir neyðist til að fjárfesta í innlendum eignum umfram það sem þeir telja æskilegt út frá hagsmunum sinna sjóðfélaga. Við það skapist talsverð hætta á ruðningsáhrifum og bólumyndun á innlendum eignamarkaði sem getur leitt til þess að innlend eignasöfn lífeyrissjóða verði að einhverju leyti ósjálfbær til framtíðar. Þá er það einnig gagnrýnt hversu langan tíma þetta á að taka. Lífeyrissjóðir hafa lagt til að þessi heimild fáist strax á árinu 2023 og farið verði upp í 65% markið á fimm árum. Þá mun staða krónunnar á hverjum tíma hafa áhrif á þessar heimildir lífeyrissjóðanna.

Enn og aftur, virðulegur forseti, er það íslenska krónan sem ræður för og kemur m.a. í veg fyrir að íslenskir lífeyrissjóðir geti hámarkað sína ávöxtun til hagsbóta fyrir sína sjóðfélaga. Seðlabankastjóri talar um varfærin skref sem þarf að stíga en þetta ber allt að sama brunni. Fíllinn í herberginu er alltaf íslenska krónan sem er að þjóna einhverjum allt öðrum en íslenskum almenningi.