152. löggjafarþing — 55. fundur,  23. mars 2022.

fjáraukalög 2022.

456. mál
[16:20]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er auðvitað rétt hjá hv. þingmanni að verðbólgan bítur og hún bítur helst þar sem minnst er til skiptanna til að ná endum saman um lok mánaðar og það er þangað sem við höfum sérstaklega verið að beina sjónum okkar. Ég birti í gær á heimasíðu fjármálaráðuneytisins vangaveltur um það hvernig verðbólgan kæmi með ólíkum hætti niður á íslenskum heimilum borið saman við Evrópu. Við höfum verið að sjá fyrir okkur að fara frekar í sértækari aðgerðir en almennari. Skilyrðin fyrir því að ganga á varasjóðinn almenna eru mjög sambærileg því sem gildir um fjáraukalög, þ.e. fjáraukalagaheimildir eru háðar mjög svipuðum skilyrðum og eiga við um almenna varasjóðinn. Við höfum hins vegar viljað hafa meira gagnsæi en minna í uppgjörinu á því hvora leiðina við förum og höfum þannig varðandi sértækar aðgerðir frekar viljað leggja fyrir þingið fjáraukalagafrumvarp. Ég ætla ekkert að útiloka að það verði metið þannig að þörf reynist á því síðar á árinu.

Varðandi húsnæðisverðsþróunina að öðru leyti þá held ég að sá hópur sem er ástæða til að hafa mestar áhyggjur af sé í raun og veru fyrstu íbúðarkaupendur. Veggurinn fyrir þá er alltaf að hækka en greiðslubyrði hinna sem eru komnir inn á markaðinn er ekkert að hækka í neinu hlutfalli við það sem umræðan ber með sér, þ.e. greiðslubyrði heimilanna vex ekki svo hratt að það sé orðið sjálfstætt og alvarlegt áhyggjuefni. Á fundi sem ég sat um daginn kom t.d. fram að í einum bankanna hafi, síðast þegar spurt var, (Forseti hringir.) tvö húsnæðislán verið í vanskilum. Þau eru sögulega í algeru lágmarki.