152. löggjafarþing — 55. fundur,  23. mars 2022.

fjáraukalög 2022.

456. mál
[18:18]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Sigmari Guðmundssyni fyrir virkilega áhugaverða ræðu. Ég hjó dálítið í það sem þingmaðurinn talaði um í tengslum við fullyrðingar ríkisstjórnarinnar fyrir kosningar varðandi lágvaxtaumhverfi og annað og þetta bjartsýnistal sem kannski má búast við af hálfu þeirra sem sitja við stjórnvölinn í aðdraganda kosninga. Ég tek undir það að sennilega séum við hér að horfa upp á afleiðingar af talsvert gáleysislegu tali í kosningabaráttunni. Það sem mig langaði til að fá innsýn þingmannsins í er varðandi þessar öru verðlagsbreytingar sem verða á þessu landi, sem er náttúrlega eitthvað sem við höfum búið við um langa hríð vegna smæðar hagkerfisins og annarra þátta. Mig langaði kannski að spyrja svolítið út í það í tengslum við þær breytingar sem hafa orðið á samfélaginu, á lánamörkuðum og annað, varðandi verðtryggð lán og óverðtryggð lán. Nú eru óverðtryggð lán orðin talsvert vinsæl, ekki síst við húsnæðiskaup, og þá er kannski algengt, eins og þingmaðurinn benti á, að fólk þiggi að festa vextina um einhvern tíma. En við vitum að auðvitað er ekki hægt að festa vextina endalaust gagnvart bönkunum. Bankar reyna náttúrlega að stýra sinni áhættu með því að takmarka þann tíma þannig að það má búast við því að þær breytingar sem eru að verða núna á verðlagi í heiminum, og hafa gríðarleg áhrif á efnahagskerfið, geti valdið einstaklingum sem hafa valið þennan kost talsverðu áfalli, þetta geti komið þeim í talsvert opna skjöldu á næstu misserum. (Forseti hringir.) Mig langaði að spyrja hvaða lausnir hv. þingmaður sér á þessu ástandi fyrst ríkisstjórnin gerir ekki ráð fyrir þeim.