152. löggjafarþing — 55. fundur,  23. mars 2022.

fjáraukalög 2022.

456. mál
[19:23]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Jú, ég er hjartanlega sammála hv. þm. Kristrúnu Frostadóttur um að við þurfum að hafa miklu meiri innsýn í það hver áhrifin verða. Ég minnist þess, og ég ræddi þetta nú hér fyrir áramót, að þegar ég var í námi í Danmörku fyrir tæpum 30 árum þá voru Danir með kerfi sem þeir kalla Adam sem byggðist á því að maður gat sagt: Ég ætla að hækka þennan skatt um þetta mikið, og maður gat fengið upplýsingar um það hvaða fólk þetta hafði áhrif á. Eva var annað stýritæki sem þeir voru með og Eva sagði hvaða áhrif ýmsar breytingar hefðu á umhverfið; skattbreytingar, hagkerfisbreytingar o.s.frv. Það er svo sannarlega þannig, og ég er mjög fljótur að viðurkenna það, að ég hef t.d. ekki þann bakgrunn að geta áttað mig á því hvað það þýðir þegar verðbólgan fer upp annað en að lánin hjá mér hækka og ýmislegt annað. Það að hafa tól og tæki eða skýrslur sem geta hjálpað okkur að skilja þegar forsendur eru að breytast, hvaða áhrif hefur það? Hvað þurfum við hér inni að vera að hugsa um og beina sjónum okkar að vegna þess að þessir hlutir eru að gerast? Stríðið í Úkraínu er gott dæmi. Hvaða áhrif hefur það? (Forseti hringir.) Það hefur áhrif á flóttamenn, það hefur áhrif á verð á korni og áburði og ýmislegt fleira. Það hefur líka þau áhrif að þróunarsamvinna er að fara að dragast saman vegna (Forseti hringir.) þess að kostnaður þar er að aukast. Mestallt af korninu í Úkraínu er selt til Sameinuðu þjóðanna til að gefa fólki (Forseti hringir.) að borða sem lifir við hungursneyð. Hvernig tengjum við þetta allt saman? Það er nákvæmlega það sem við þurfum að gera.