152. löggjafarþing — 56. fundur,  24. mars 2022.

þjóðaratkvæðagreiðsla um aðild að ESB.

[11:14]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Stóra spurningin er: Hvers vegna stakk Viðreisn ESB-málinu í rassvasann fyrir kosningar? Hvers vegna var ekki hægt að flagga málinu? Hvers vegna var þetta mál ekki sett efst á stefnuskrána ef það er svona mikilvægt? Við vorum jú að kjósa. Við vorum að framkvæma lýðræðið, við vorum að leita til fólks. Hvers vegna gerði Samfylkingin ekki það sama? Það er stóra spurningin. Það var tækifæri þjóðarinnar til að lýsa eindreginni afstöðu. Ég segi það sama með mál eins og stjórnarskrána, sem Píratar sögðu að væri stærsta málið og ætluðu að gera að úrslitaatriði við stjórnarmyndun. Hver var niðurstaðan í því? Voru ekki lýðræðislegar kosningar? Ég held að við getum lesið það út úr fylginu sem viðkomandi flokkar tóku með sér úr kosningunum.

Já, ég er þeirrar skoðunar að okkur sé best borgið utan Evrópusambandsins, ekki einangraðir frá Evrópusambandinu heldur einmitt í góðu og þéttu samstarfi við Evrópusambandið, og að Evrópska efnahagssvæðið tryggi mjög vel mjög mikilvæga hagsmuni okkar. Það er ekki gallalaust, eins og ég sagði, eftir sem áður. En við erum með eina nýja sönnun þess að okkur er vel borgið utan Evrópusambandsins. Það er lífskjararannsóknin sem er nýkomin út. Hún mælir það hver lífskjörin eru. Og um hvað annað snýst þetta á endanum en lífskjör? (Gripið fram í: Heyr, heyr.)