152. löggjafarþing — 56. fundur,  24. mars 2022.

lengd þingfundar.

[12:02]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Hæstv. ráðherra rifjaði upp áðan að þegar hann var í stjórnarandstöðu á sínum tíma þá hafi hann ekkert verið að kalla eftir málum frá stjórnarmeirihlutanum en það skyldi þó ekki vera að það hafi bara ekkert þurft þá. Þá var ríkisstjórn hérna sem gekk rösklega til verks, brást við áskorunum hverju sinni og þorði að taka umdeildar ákvarðanir, var ekki bara alltaf í einhverri vinsældakeppni í fjölmiðlum án þess að fylgja eftir yfirlýsingum sínum hér í þingsal og með þingmálum. Það skyldi þó ekki vera einmitt þess vegna sem það þurfti ekki sífellt að vera að kalla eftir málum? Hverju köllum við núna eftir? Við köllum m.a. eftir því að loforð sem ríkisstjórnin gaf við gerð lífskjarasamninga séu efnd. Það er bara þannig. Þetta þarf að gera í þágu félagslegs stöðugleika hér í landinu. Það styttist í næstu kjarasamninga. Þá gengur ekki að ríkisstjórnin sé enn þá með buxurnar niðrum sig frá því að lífskjarasamningurinn var gerður, að það sé enn ekki búið að lögfesta neinar varnir fyrir leigjendur, (Forseti hringir.) að það sé enn ekki búið að lögfesta aðgerðir gegn launaþjófnaði o.s.frv. (Forseti hringir.) Þetta er það sem við köllum eftir. Önnur mál mega svo eiga sig.