152. löggjafarþing — 56. fundur,  24. mars 2022.

lengd þingfundar.

[12:15]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Loksins er að verða gaman á Alþingi. Hér er að eiga sér stað samtal sem mér hefur fundist skorta á undanfarnar vikur. Mér finnst þetta einhvern veginn snúa að vinnubrögðum og vinnulagi sem viðhaft er. Málum var lofað hér inn fyrir löngu síðan og eru jafnvel ekki komin. Önnur eru að koma og það er ætlast til að þau verði afgreidd með einhverri hraðferð. Er það virkilega þannig að vinnubrögðin þurfi að vera slík? Er það þá ekki bara verkefni forseta að fara yfir þessi vinnubrögð og áætla tiltekinn tíma fyrir hvert það mál sem sett er fyrir þingið og ef ekki er tími fyrir það innan þess ramma sem búið er að áætla fyrir það á þinginu þá verði málið ekki sett á dagskrá? Ég held að það sé hægt að breyta þessum vinnubrögðum og við eigum öll að fara í það. (Forseti hringir.) Jú, ráðherrann sagði: Ef það lítur út fyrir að vera málþóf þá er það málþóf. En það verður málþóf (Forseti hringir.) á meðan vinnubrögðin eru svona.