152. löggjafarþing — 56. fundur,  24. mars 2022.

lengd þingfundar.

[12:23]
Horfa

Halldóra Mogensen (P) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni varðandi það að stjórnarliðar ættu að taka þátt í umræðunni og ég kalla eftir því líka. Svo kalla ég eftir því að forseti þingsins, ef raunverulegur vilji er fyrir því að eiga samráð og samtal við þingflokksformenn, geri það ekki í gegnum tölvupóst því að það er hvorki hægt að kalla það samráð né samtal. Sjálfstæðismenn koma hérna upp og þeir tala um einhverja taktík og leikaraskap stjórnarandstöðunnar og mig langar bara til að segja: Margur heldur mig sig. Það er kannski taktík sem Sjálfstæðisflokkurinn er vanur að beita en þarf ekki að yfirfæra eða spegla yfir á okkur í stjórnarandstöðunni núna. Ég held að það sé raunverulegur vilji til að eiga hér góðar og innihaldsríkar samræður um mál í 1. umr. Það skiptir líka ofboðslega miklu máli af því að við sjáum það að tveir ráðherrar hafa tekið mál til baka eftir 1. umr. og áttað sig á hversu stórgölluð þau eru. Þá spyr maður sig: Ef stjórnarliðar hefði meiri áhuga á því að eiga (Forseti hringir.) lýðræðislegt samtal og samráð við stjórnarandstöðuna hefðu þeir gallar kannski komið í ljós fyrr? Við hefðum getað sparað tíma þingsins (Forseti hringir.) við að ræða þau mál af því að þau hefðu bara verið tekin til baka og við hefðum ekki þurft að taka þau til 1. umr. En það er ekki vilji fyrir þessu samráði, (Forseti hringir.) þessu lýðræðislega samtali við stjórnarandstöðuna, og þess vegna erum við í þessari stöðu núna.