152. löggjafarþing — 56. fundur,  24. mars 2022.

listamannalaun.

408. mál
[17:08]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er svolítið forvitinn að heyra hvernig á nákvæmlega að koma þessu í kring, hvort hv. þingmaður sjái fyrir sér breytingar á þessu frumvarpi í þá veru að það verði ekki aðeins miðað við það að obbinn af þessum viðbótarlaunum renni til ungs fólks heldur verði líka sett sérstök skilyrði um að það sé í fjárhagskröggum eða eitthvað slíkt. Er þetta eitthvað sem hv. þingmaður og þingmenn Sjálfstæðisflokksins sjá fyrir sér að leggja fram í formi breytingartillögu eða með einhvers konar reglugerðarheimild til ráðherra? En þetta er að því er ég best veit algjörlega á skjön við listamannalaunakerfið eins og það hefur nú hingað til verið hugsað. Ef það væri markmið með þessu frumvarpi að bregðast sérstaklega við með sértækum hætti efnahagshögginu sem tilteknir listamenn hafa orðið fyrir o.s.frv., (Forseti hringir.) þá held ég að það þurfi algerlega að endurskoða aðferðafræðina á bak við það. (Forseti hringir.) Er hv. þingmaður kannski sammála mér um það? (Forseti hringir.) Þarf ráðherrann helst að taka þetta frumvarp aftur inn í ráðuneyti sitt og vinna það upp á nýtt?

(Forseti (DME): Ég bið hv. þingmenn að virða ræðutímann. )