152. löggjafarþing — 56. fundur,  24. mars 2022.

listamannalaun.

408. mál
[18:20]
Horfa

Jakob Frímann Magnússon (Flf) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir hans góðu yfirferð og öðrum sem hafa tjáð sig hér í dag um þetta góða frumvarp hæstv. menningar- og viðskiptaráðherra. Við eigum eftir að fara yfir það eins og gengur. Ég er mjög ánægður með að frumvarpið sé komið fram og ég vona að okkur takist að afgreiða það hratt og vel í gegnum þingið. Eins og hv. þm. Jóhann Páll Jóhannsson benti á þá liggur ansi mörgum mikið á eftir tveggja ára starfsbann, og það þarf auðvitað líka að huga að þeim stoðstéttum sem nefndar hafa verið hér í dag. Ég minni bara á það að lokum að ef við erum sérdeilis góð og farsæl í einhverju, allt frá landnámi til vorra daga, allt frá dögum Snorra til Laxness og allra þeirra sem hafa komið á eftir, skrifað bækur, tónlist, tölvuleiki og sitthvað, þá er það einmitt í hugverkageiranum. Af þessum verkum erum við þekktust um alla veröld og það eru 3 milljarðar í nýsköpunarsjóðum hér sem gagnast í þeim geira sem er náskyldur þessum. Það mætti alveg kalla þetta nýsköpunarsjóð listanna eða hvað annað sem við kjósum.

Ég held að við eigum að vera skjót að afgreiða þetta mál og bent hefur verið á margt prýðilegt. Ég ætla ekkert að orðlengja þetta enn frekar vegna þess að ég veit að hæstv. ráðherra er á leiðinni á sinfóníutónleika í nafni Úkraínu. Ég óska hæstv. ráðherra til hamingju með þetta góða frumvarp og ykkur sem hafið komið með góðar ábendingar.