152. löggjafarþing — 56. fundur,  24. mars 2022.

listamannalaun.

408. mál
[18:22]
Horfa

menningar- og viðskiptaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmönnum fyrir mjög góðar umræður. Það er margt sem ég vil aðeins koma inn á áður en frumvarpið gengur til hv. allsherjar- og menntamálanefndar. Ég vil bara segja um þær hugmyndir sem hv. þm. Vilhjálmur Árnason hefur um að við ætlum að leggja niður listamannalaunin, að það er auðvitað ekki svo að mínu mati. Hugmyndin er að við ætlum að endurskoða kerfið, auka gagnsæi og fyrirsjáanleika. Ég get bara sagt það hér að eitt af því sem við sjáum vísi að í þessu frumvarpi er að við verðum með flokk sem er 35 ára og yngri. Svo verðum við með starfslaun listamanna og svokallaða heiðursmannadeild. Við höfum fengið gagnrýni á starfslaun listamanna eftir síðustu úthlutun þar sem margir af okkar, leyfi ég mér að segja, allra bestu rithöfundum féllu af listamannalaunum, jafnvel fólk sem búið er að skrifa tugi bóka. Og þetta er auðvitað eitthvað sem við þurfum að hugsa betur og endurskoðunin gengur út á það.

Það kom fram í máli Helgu Völu Helgadóttur að orðið hefði fækkun í ákveðnum listgreinum. Ég vil benda á að í öðrum listgreinum eins og í sviðslistum er talsverð fjölgun og það sama á líka við um kvikmyndir. Hins vegar er það rétt sem kemur fram hjá hv. þingmanni að við eigum auðvitað að líta í eigin barm og huga að því hvers vegna þessi fækkun er að eiga sér stað og ég er sammála hv. þingmanni, við getum gert betur varðandi starfsumhverfi listamanna. Þess vegna hækkuðum við listamannalaunin verulega núna. Ég segi það bara við þingheim: Ég vildi að við hefðum gert það fyrr. Núna erum við svolítið að leggja grunninn að því að efla þetta starfsumhverfi og við erum líka að huga að því — og ekki bara huga að því, ég tel að það sé mjög eðlilegt að þessi málaflokkur sé verðbættur eins og önnur málefnasvið og við vinnum að því.

Hv. þm. Vilhjálmur Árnason var með spurningar um það hvers vegna þessi úthlutun ætti sér stað núna þegar við værum búin að aflétta öllu. Þá vil ég bara benda hv. þingmanni á, ef við berum til að mynda listamenn saman við fyrirtæki sem eru í ferðaþjónustu, að það sem hefur gerst hjá þeim er að eigið fé þeirra er uppurið og það eru miklar skammtímaskuldir. Varðandi þær atvinnugreinar sem hafa lent illa í Covid þá ber okkur samfélagsleg og siðferðisleg skylda til að styðja við bakið á viðkomandi einstaklingum. Ég var sjálf mjög hlynnt því að við myndum beita svokallaðri keynesískri hagfræði í upphafi Covid-faraldursins og það tókst mjög vel hjá ríkisstjórninni. Efnahagsstjórnin tókst vel. Við sjáum fram á hægan efnahagsbata, atvinnuleysið er komið niður í 4,9%. Það sem ógnar stöðunni helst núna er verðbólguþrýstingur sem er bæði alþjóðlegur og því miður líka heimatilbúinn og þar þurfum við að sjálfsögðu að standa vaktina

Margar góðar hugmyndir komu hér fram og ég tel að við munum eiga í mjög góðu samstarfi við þingið og ráðuneytið og ég treysti því líka að hv. allsherjar- og menntamálanefnd fari yfir málið og taki tillit til umræðunnar sem hefur átt sér stað hér í dag.

Ég vil að lokum taka undir með þeim þingmönnum sem hafa talað með þeim hætti að það er í raun og veru menningin sem er okkar sterkasta stoð, hvort heldur hér innan lands eða í útflutningi. Það er tónlistarfólk á borð við Björk, hina ungu Laufeyju Lín, Monsters of men, myndlistarmenn eins og Ragnar Kjartansson. Ég get svo sem staðið hér í allt kvöld og talið upp allt okkar stórkostlega listafólk. Við skulum ekki gleyma því að það eru auðvitað margir sem hófu sinn feril á því að fá starfslaun listamanna. Ég mun leggja mikinn metnað í það að hlúa að og styrkja þetta starfsumhverfi. Bara að lokum, hér var aðeins minnst á hönnun og við munum líka leggja sérstaka áherslu á hana.