152. löggjafarþing — 56. fundur,  24. mars 2022.

fjarskipti .

461. mál
[18:48]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Af því að ég reikna með að ráðherrann sé með einhvern á vakt að fylgjast með okkur þá auðveldum við okkur kannski starfið í nefndinni og biðjum bara núna um minnisblað um áhrif þessa dóms. Fyrir áheyrendur þá er það dómur C-293/12. Það væri gott að fá lögfræðiálit á því hvort þessi dómur þýði ekki að 89. gr. geti einfaldlega ekki staðið eins og hún er í frumvarpinu.

Við ræddum hér fyrr í vetur svokallað Mílumál þar sem fjarskiptalög fléttuðust saman við eignarhald erlendra aðila á þjóðfélagslega mikilvægum innviðum. Það voru tvær hliðar á sama peningi þegar við vorum að ræða það hér fyrir jól. En nú háttar svo til að forsætisráðherra hefur horfið frá þeim fyrirætlunum sínum að leggja fram frumvarp til laga um rýni fjárfestinga erlendra aðila í þýðingarmiklum samfélagsinnviðum og tengdri starfsemi vegna þjóðaröryggis, eins og ég hafði alltaf séð fyrir mér, og við töluðum hér í tengslum við Mílumálið um að það þyrfti að haldast hönd í hönd við innleiðingu Kóðans til að við lentum ekki með allt niðrum okkur eins og gerðist þegar Míla var allt í einu seld úr landi.

Hvað finnst ráðherranum um að þetta frumvarp forsætisráðherra eigi ekki að líta dagsins ljós á þessu þingi?