152. löggjafarþing — 56. fundur,  24. mars 2022.

fjarskipti .

461. mál
[19:34]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið að nýju. Ég veit hreinlega ekki alveg hvernig ég á að fara því að útskýra nánar hvernig þetta ákvæði er sannarlega mjög gróft inngrip í mannréttindi fólks. Hins vegar er áhugavert að hv. þingmaður skuli nefna persónuverndarlöggjöf Evrópusambandsins sem var bylting í persónuvernd í heiminum og hefur sannað sig gríðarlega sem áhrifavaldur á persónuvernd, líka í Bandaríkjunum. Það má segja að sá slagur hafi unnist að mörgu leyti sem þó átti sannarlega að heyja af hálfu fjarskiptafyrirtækja í Bandaríkjunum. Það sem mig langaði einmitt að benda á er að þessi dómur sem féll hérna árið 2014, sem ógilti sambærileg ákvæði um gagnageymd og taldi þau ganga gegn mannréttindum borgaranna, það gerist allt saman áður en þessi persónuverndarlöggjöf er gengin í gildi og orðin að því sem hún er í dag. Ef þetta var talið stríða gegn persónuvernd borgaranna á þeim tíma þá er ekki efi í mínum huga um að það væri talið gera það enn þann dag í dag. En hvort það muni reyna á þetta ákvæði íslenskra laga eða að það þurfi að reyna á það sérstaklega — við getum sannarlega sett alls konar lög og það sem okkur í sjálfu sér dettur í hug á þessu þingi og svo kemur í ljós fyrir dómstólum og í framkvæmd hvort það standist þær ströngu kröfur sem við gerum til þess að lög okkar séu í samræmi við stjórnarskrá og mannréttindasamninga. Ég tel alveg ljóst að þetta ákvæði sé ekki komið til að vera og tel að við ættum bara að sætta okkur við það strax.