152. löggjafarþing — 57. fundur,  28. mars 2022.

fæðuöryggi þjóðarinnar í ljósi stríðsins í Úkraínu.

[16:20]
Horfa

Þórarinn Ingi Pétursson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir að taka þessa þörfu umræðu hér í dag um fæðuöryggi þjóðarinnar í ljósi þeirra breyttu aðstæðna sem eru því miður til staðar í heiminum í dag. Áherslupunktar og spurningar í þessari umræðu eru fimm talsins og ætla ég að fara yfir þá.

1. Hvaða vinna á sér stað hjá Þjóðaröryggisráði og öðrum hagvörnum til þess að tryggja fæðuöryggi í landinu?

2. Er þörf á því að setja af stað sérstaka vinnu sem greinir og metur viðbrögð við hækkandi matar- og afurðarverði hér á landi út af þeim aðstæðum sem nú eru uppi?

3. Hefur ráðherra gert áætlanir um að tryggja samvinnu milli matvælaráðuneytis, viðskiptaráðuneytis og fjármálaráðuneytis svo hægt sé að meta áhrif þessara aðstæðna á þjóðina?

4. Með hvaða hætti ætlar ráðherra að aðstoða bændur til þess að bregðast við þessu óvenjulega ástandi?

5. Telur ráðherra þörf á því að efla innlenda matvælaframleiðslu með einhverjum hætti til þess að bregðast við ástandinu og mun ráðherra beita sér fyrir því?

Ef við skilgreinum fæðuöryggi er eftirfarandi skilgreining til, með leyfi forseta:

„Fæðuöryggi er til staðar þegar allt fólk hefur ávallt raunverulegan og efnahagslegan aðgang að nægum, öruggum og næringarríkum matvælum til að uppfylla næringarþarfir sínar með frjálsu fæðuvali til að lifa virku og heilsusamlegu lífi.“

Í skýrslu um fæðuöryggi á Íslandi sem kom út árið 2021, virkilega ljómandi góð skýrsla og hvet ég þingheim allan til að lesa hana, segir, með leyfi forseta:

„Eiginlegt fæðuöryggi Íslendinga er háð fjórum meginforsendum:

að auðlindir til framleiðslunnar séu til staðar, s.s. fiskistofnar og land til ræktunar

að þekking á framleiðslu og tæki til framleiðslu séu til staðar,

að aðgengi að aðföngum sé tryggt fyrir framleiðslu sem mætir þörfum þjóðarinnar, s.s. olíu, áburði og fóðri,

að birgðir séu til af þeim fæðutegundum sem þjóðin þarfnast en sem innlend matvælaframleiðsla getur ekki tryggt eða slík framleiðsla hér heima verði efld.“

Mikilvægasti punkturinn er að auðlindir til framleiðslunnar séu til staðar, svo sem fiskstofnar og land til ræktunar.

Vissulega tikkum við í öll þessi box þessara fjögurra punkta og við stöndum nokkuð vel þegar að þessu kemur eins og staðan er í dag en hins vegar, í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu og í ljósi ástandsins í heiminum í dag, getur sú staða komið upp að aðgengi að aðföngum til matvælaframleiðslu getur brugðist. Eitt af þessum mikilvægu aðföngum er áburður. Hann er gríðarlega mikilvægur t.d. til kornframleiðslu og til að hámarka framleiðsluna. Áburðarframleiðsla er orkufrek en orkuverð hefur einnig rokið upp og áburðarverð hefur tvöfaldast á einu ári. Nú eru horfur á því og stefnir í það að áburðarverð komi til með að hækka enn meira. Samspil milli áburðarverðs og matvælaverðs er þannig að það helst yfirleitt alltaf í hendur. Það er raunverulega sú staða sem við horfum á núna. Það getur líka orðið uppskerubrestur eins og t.d. var núna í Kína á síðasta ári þar sem voru mikil flóð og það var mun minni framleiðsla, og einnig var mun minni framleiðsla í Bandaríkjunum á síðasta ári vegna þurrka. Síðan bætist stríðið við.

Í niðurlagi skýrslunnar um fæðuöryggi segir, með leyfi forseta:

„Allar greinar fæðuframleiðslu á Íslandi eiga það sammerkt að þær byggja á þekkingu sem er til staðar í landinu og framleiðsluaðferðum sem lúta reglum sem hér gilda. Til að þessar greinar haldi velli þurfa þær að búa við ásættanlega afkomu. Innflutningur á þeim vörum sem gefa versluninni mesta framlegð getur orðið til þess að framleiðsla í heilli búgrein leggst af. Búgreinarnar eru háðar hverri annarri, ef ein þeirra leggst af getur fjarað fljótt undan öðrum.“