152. löggjafarþing — 57. fundur,  28. mars 2022.

fæðuöryggi þjóðarinnar í ljósi stríðsins í Úkraínu.

[17:05]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég ítreka þakkir til þeirra sem hér hafa tjáð sig og er mjög ánægjulegt að finna þennan samhljóm hér í þinginu um þetta mikilvæga mál sem hefur í raun og veru verið mikilvægt mjög lengi en var fyrst sett á dagskrá á vettvangi þjóðaröryggisráðs 2018, en þá strax var það sett á dagskrá. Þá var verið að hugsa um þessa langtímastefnumótun en ég ítreka líka það sem ég sagði í fyrri ræðu að ég setti strax af stað hóp til að skilgreina neyðarbirgðir um leið og brast á með þessum skelfilegu tíðindum frá Úkraínu. Sá hópur vinnur undir forystu þjóðaröryggisráðs og horfir á þessa ólíku þætti, ekki bara matvælin.

Hv. þm. Þórarinn Ingi Pétursson nefndi aðstoð við bændur og ég vil minna á þann stuðning sem var greiddur út samkvæmt ákvörðun í fjárlögum til að mæta hækkunum á áburðarverði. Eins vil ég minna á fæðuöryggisstefnuna sem er von á núna í apríl sem er þá til lengri tíma. En stóra málið í þessu er að hér finnst mér í senn fara saman öryggissjónarmið og líka sóknarfæri því við eigum auðvitað ótrúleg tækifæri í innlendri matvælaframleiðslu. Hér hafa þingmenn rætt um garðyrkju og ég minni á þann viðbótarstuðning sem við settum til garðyrkjubænda, fjórðungsaukningu á stuðningi til garðyrkjubænda, og mætti gera betur, enda er alveg gríðarleg þörf, tel ég vera, fyrir aukið framboð á innlendu grænmeti. Það eru sóknarfæri í kornframleiðslunni og í nýsköpuninni sem við erum að sjá um land allt, ekki síst með tilkomu nýs matvælasjóðs sem hefur beinlínis verið afl sem hefur leyst úr læðingi alveg ótrúlega krafta hringinn í kringum landið af alls kyns nýsköpun og frumsköpun í matvælaframleiðslu. Ég held því að þarna séu ekki bara mikilvæg mál sem varða öryggi okkar og fæðuöryggi heldur líka sóknarfæri, ekki bara til innlendrar neyslu heldur líka til útflutnings og ég fagna þeim samhljómi sem mér finnst ég finna hér í þessum sal, alla vega hjá mörgum hv. þingmönnum.