152. löggjafarþing — 57. fundur,  28. mars 2022.

Grímseyjarferja.

431. mál
[18:21]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir að taka þetta mál á dagskrá því að ég tel að þetta sé afskaplega mikilvægt. Báðar þær ferjur sem eru í okkar kjördæmi skipta gríðarlega miklu máli, bæði fyrir þá sem búa í Grímsey og Hrísey, en ekki síst fyrir ferðamenn sem þangað vilja koma. Við erum alltaf að reyna að byggja upp og hjálpa til við að fjölga atvinnutækifærum. Grímsey hefur verið ein af þessum brothættu byggðum, eða bjartari byggðum, ef við eigum að orða það þannig, og ég tel að ef við erum þarna með gott skip sem siglir á milli lands og eyjar þá sé það stór þáttur í því að Grímseyingar geti byggt upp almennilega ferðaþjónustu. Það er partur af því að fólk vilji yfir höfuð fara með bátnum út í eyju því að þetta er auðvitað ekki viðunandi eins og þetta er, eða eins og hv. þm. Jakob Frímann Magnússon sagði: Það á ekki að valda manni ógleði vilja sækja heim eyju sem er jafn falleg og Grímsey.