152. löggjafarþing — 57. fundur,  28. mars 2022.

rafræn stjórnsýsla við afgreiðslu umsókna hjá Útlendingastofnun.

255. mál
[19:01]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Frú forseti. Ég vil lesa upp úr skilaboðum, með leyfi forseta: Sæl. Vinkona mín hefur sótt um dvalarleyfi á Íslandi en nú er henni sagt að mál hennar sé týnt hjá Útlendingastofnun. Hvað ráðleggur þú henni að gera? Ég spurði: Týnt? Hvernig getur það verið týnt? Ég veit það ekki, henni var sagt það af starfsmanni Útlendingastofnunar. Heldurðu að henni verði nokkuð vísað burt frá landinu af því að þau hafa ekkert svarað henni í sex mánuði og segja núna að málið sé týnt? Viku seinna: Sæl. Hún fékk svar í gær. Hún fær dvalarleyfi í eitt ár. Ég svaraði: Já, það er mjög gott, en voru þau ekki búin að segja að umsóknin væri týnd? Jú, en nú var hún ekki týnd. Ég held, frú forseti, að þetta sé merki um að það sé kannski kominn tími til að nútímavæða Útlendingastofnun og setja umsóknirnar á rafrænt form. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)