152. löggjafarþing — 57. fundur,  28. mars 2022.

málsmeðferðartími í kynferðisafbrotamálum.

306. mál
[19:36]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Frú forseti. Ég þakka fyrir þessa mikilvægu umræðu. Ég hnýt aðeins um þau orð hæstv. dómsmálaráðherra að ætla núna að fækka rannsakendum kynferðisbrotamála, setja þá á einn stað, vonandi annan stað en þessi eini sýslumaður sem verður eftir verður á. Við ætlum hins vegar að hafa ofsalega marga ráðherra til að sinna hinum og þessum málaflokkum. Ég hef aðeins velt því fyrir mér hvort þetta komi til með að auka traust almennings á réttarvörslukerfinu því ég held að til þess að byggja upp sterkt og gott réttarkerfi og auka réttaröryggi þurfum við að byggja upp traust á kerfinu, að almenningur treysti því að geta leitað til lögreglu þegar eitthvað kemur upp á og geti treyst því að lögreglan hafi möguleika á að rannsaka mál og ljúka rannsókn mála. Því miður er það ekki raunin í dag.