152. löggjafarþing — 57. fundur,  28. mars 2022.

endurheimt votlendis.

360. mál
[20:14]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Líneik Önnu Sævarsdóttur fyrir góðar og málefnalegar fyrirspurnir í þessu mikilvæga máli.

Við fyrstu spurningu, um hvernig áhrif endurheimtar votlendis séu metin, er svarið það að tilgangur endurheimtar votlendis er að fá til baka virkni vistkerfisins sem hefur raskast við framræslu að eins miklu marki og mögulegt er. Sú virkni er t.d. geymsla á kolefni, búsvæði lífvera, vatnsmiðlun og vatnsgæði. Til að það gerist þarf að hækka grunnvatnshæð upp að yfirborði mýrarinnar og næst því þar með að tefja eða stöðva vatnsrennsli í gegnum svæðið. Hægt er að fylgjast með vatnshæð með því að setja niður vatnshæðarrör. Þó að vatnshæð hafi hækkað lýkur endurheimt ekki þar því fylgjast þarf áfram með svæðinu á nokkurra ára fresti til að athuga þróun á raksárum og mannvirkjum eftir framkvæmdir, sem og þróun á lífríki eins og gróðurssamsetningu. Mælingar á gasi og streymi þess sýna að við það að hækka grunnvatn upp að yfirborði lands stöðvast að mestu niðurbrot lífrænna efna og losun koltvísýrings stöðvast því jarðvegsdýr og örverur drepast eða hætta öllu niðurbroti lífrænna efna. Í heilbrigðum mýrarvistkerfum verður uppsöfnun lífrænna efna en ekki niðurbrot. Nægilegt er því að fylgjast með vatnsstöðuvistkerfinu og gróðurfari og tengja það samanburðarmælingum á vöktunarsvæðum og nýendurheimtum svæðum. Fylgni mælinganna er það sterk að ástæðulaust er að gera mælingar á öllum svæðum og öllum blettum endurheimtra svæða. Landgræðslan leggur áherslu á forskoðun svæða sem til stendur að endurheimta og að sú forskoðun taki til allra árstíma til að gera sér grein fyrir því hvernig vatn dreifist á svæðinu á mismunandi árstímum.

Almennt er besti tíminn til að vinna við endurheimt framræslusvæða síðsumars. Þá eru svæðin alla jafna þurrust þannig að auðvelt er að komast með þung tæki um svæðin og gera má ráð fyrir að varpi fugla sé lokið 15. júlí. Mikilvægt er að hafa í huga að land er þurrast á þessum tíma og því er hætta á að vatnsmagn svæðis sé vanmetið því að það breytist hratt eftir veðurfari, t.d. eftir miklar haustrigningar. Eldri endurheimtum svæðum Landgræðslunnar virðist öllum vegna vel þrátt fyrir að á ýmsu hafi gengið veðurfarslega. Samanburður á árinu 2017, sem var fremur þurrt, og 2018, sem var óvenju úrkomusamt á suðausturhluta landsins, sýnir hversu takmarkandi er að ætla sér að vakta svæðið í eitt ár fyrir framkvæmd. Það er ekki nóg.

Þá er það önnur spurning um mat á áhrifum af endurheimt votlendis og nokkrir þættir nefndir. Landgræðslan vinnur samkvæmt gátlista við endurheimt á svæðum sem nálgast má á heimasíðu stofnunarinnar. Þar eru þeir þættir útlistaðir sem kannaðir eru fyrir endurheimt og ná til þeirra þátta sem hér er spurt um. Gátlistinn er nokkuð ítarlegur og nær til mats á jarðvegsgerð og dýpt jarðvegs, gæði framræslu, aðkomu vatns, halla lands, ruðninga úr uppgreftri, samfellu svæðis, stærð svæðis, mögulegra neikvæðra áhrifa á aðliggjandi svæði og fornminja.

Þá er það þriðja spurningin um hvaða gögn beri að leggja fram í umsókn til sveitarfélaga um framkvæmdaleyfi til endurheimtar votlendis. Þar skal fyrst nefnt að það er alls ekki sjálfsagt að framkvæmdir tengdar endurheimt votlendis séu framkvæmdaleyfisskyldar þó að það sé vissulega mögulegt. Eins eru það landeigendur sjálfir sem eru eiginlegir framkvæmdaraðilar en fá styrk, ráðgjöf og aðhald frá Landgræðslunni. Landgræðslan setur það sem skilyrði fyrir styrkveitingu að erindi séu send til sveitarstjórnar og þá umsókn um framkvæmdaleyfi sé það mat sveitarfélagsins að þess sé þörf. Framkvæmdaleyfisskyldan er háð mati sveitarstjórnar hverju sinni og vísast vegna þessa til 3. mgr. 4. gr. reglugerðar um framkvæmdaleyfi nr. 772/2012. Þau gögn sem Landgræðslan hefur lagt fram með umsóknum til sveitarfélags um framkvæmdaleyfi er stærð endurheimts svæðis, lengd skurðar, kort yfir svæðið, lýsing á framkvæmdum og áhrifum á nærliggjandi svæða eða jarðveg, ef einhver eru. Ef sveitarfélög óska eftir ítarlegum upplýsingum er brugðist við því hratt og örugglega. Annars er vísað til 7. gr. reglugerðar um framkvæmdaleyfi en þar eru tilgreind gögn þau er fylgja skuli framkvæmdaleyfisumsókn.

Svarið við fjórðu spurningunni um upplýsingaskyldu sveitarfélags gagnvart eigendum aðliggjandi jarðar vegna mögulegra áhrifa endurheimtar votlendis er að oft eru áhrif framkvæmda einungis takmörkuð við svæði einstakra jarða og áhrif á nágrannajarðir engin eða hverfandi. Séu áhrif á aðliggjandi jarðir einhver er eðlilegt að upplýsa og leita eftir afstöðu hlutaðeigandi eiganda. Sveitarstjórn getur til að mynda ákveðið að fyrirhuguð framkvæmd skuli grenndarkynnt nágrönnunum áður en afstaða er tekin til framkvæmdaleyfisumsóknarinnar. Við undirbúning endurheimtar votlendis skal taka mið af 7. gr. og 8. gr. vatnalaga sem fjalla um heimild manns til að veita vatni á fasteign sinni og skulu sveitarfélög því gera það í sínum afgreiðslum og kynningum.

Sem svar við fimmtu spurningunni um hver sé upplýsingaskylda sveitarfélags gagnvart eigendum mannvirkja, vega, túna sem liggja að votlendi sem ætlunin er að endurheimta vísast til svars við spurningu fjögur.

Sjötta spurning: Hver ber skaðabótaábyrgð ef endurheimt votlendis, leiðir til tjóns af mannvirkjum, vegum eða túnum? Svar: Séu skilyrði fyrir skaðabótaábyrgð á annað borð fyrir hendi er eðlilegt að líta til þess er ábyrgð ber á framkvæmd hverju sinni. Slíkt getur almennt helst verið á herðum landeigenda eða Landgræðslunnar en þeirri stofnun hafa stjórnvöld falið það verkefni að vinna að endurheimt votlendis í landinu.