152. löggjafarþing — 57. fundur,  28. mars 2022.

tæknifræðinám við Háskólann á Akureyri.

387. mál
[20:56]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrirspyrjanda fyrir að setja þetta mál á dagskrá í kvöld og hæstv. ráðherra jafnframt fyrir skýr og greinargóð svör. Ég er eindreginn stuðningsmaður þess að þetta tæknifræðinám fái að raungerast. Ég hef fylgst með Háskólanum á Akureyri síðan ég var sjálf starfandi við Háskólann á Bifröst, sem er annar skóli sem hefur sérhæft sig í fjarnámi, og hef upplifað á eigin skinni hversu mjög þetta skiptir máli fyrir atvinnutækifærin, styrkingu og það að sækja fram á viðkomandi svæði. Ég er því afar ánægð með þessi svör, trúi því að það sé augljóst fyrir nýjan ráðherra háskólamála og nýsköpunar að vera markviss í stuðningi sínum við Háskólann á Akureyri að þessu leyti. Það verði samfélaginu þar mjög til góða. Það verði samfélaginu í heild sinni mjög til góða og mjög í samræmi við þær áherslur sem hún hefur flaggað hér á fyrstu vikum og mánuðum í embætti.