152. löggjafarþing — 59. fundur,  29. mars 2022.

um fundarstjórn.

[13:37]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Frú forseti. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem við komum hér upp og kvörtum undan þessum vinnubrögðum og þessum viðhorfum. Ég tek undir það með þeim sem hér hafa mælt áður að líklega sé um að ræða mistök, að gleyma einfaldlega fulltrúum minni hlutans á fundum. En þó að þetta séu mistök endurspeglar þetta nákvæmlega hugarfar sem við höfum séð alveg frá því að þing hófst í haust. Þetta kom mér á óvart. Hér hefur t.d. verið nefnd sú ákvörðun meiri hlutans að beita fullu meirihlutaræði í skipan nefnda sem mér skilst að sé eitthvað sem tíðkaðist ekki þar áður. Svo höfum við séð hvert dæmið á fætur öðru í störfum okkar á þessu þingi, fjarveru ráðherra í óundirbúnum fyrirspurnum, fjarveru þingmanna meiri hlutans og mörg önnur merki þess að ekki sé tilhlýðileg virðing borin fyrir Alþingi sem einni heild með því að tryggja þátttöku minni hlutans og að rödd okkar heyrist.