152. löggjafarþing — 59. fundur,  29. mars 2022.

um fundarstjórn.

[13:40]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Frú forseti. Manstu hérna á síðasta kjörtímabili þegar var talað um eflingu Alþingis í stjórnarsáttmála? Það hljómar dálítið eins og brandari. En það er sama ríkisstjórn sem stýrir Stjórnarráðinu í dag. Fólk sem beitti fullum þingstyrk sínum til að kreista út hvern einasta valdadropa sem var í boði eftir kosningar situr síðan þegjandi hérna í þingsal allt kjörtímabilið, tjáir sig ekki um nokkurt einasta mál. Stjórnarliðarnir segja að þeir megi þegja í þingsal af því að meginþungi þingstarfanna sé hvort sem er í nefndum. Hvað gerist þá? Þeir fáu stjórnarliðar sem er hleypt inn í nefndirnar sitja einir þar vegna þess að áheyrnarfulltrúarnir, sem fá ekki fast sæti út af valdagræðginni í upphafi kjörtímabils, fá ekki boð á fundina. Stjórnarandstaðan skipti svo litlu máli að það þarf ekki einu sinni að bjóða henni á fundi. Vonandi var þetta óvart, vonandi, en þetta endurspeglar samt viðhorfið. Þetta endurspeglar lítilsvirðinguna fyrir því að við erum Alþingi allra Íslendinga, ekki bara þeirra sem kusu stjórnarflokkana.