152. löggjafarþing — 59. fundur,  29. mars 2022.

um fundarstjórn.

[13:42]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf):

Frú forseti. „Það verði byggðar allt að 20.000 íbúðir á næstu fimm árum og þar af 7.000 með aðkomu hins opinbera í formi fjölbreytts húsnæðisstuðnings. Við erum með skýr markmið.“ — Þetta skrifaði hæstv. innviðaráðherra í Morgunblaðið fyrir örfáum vikum og aðrir ráðherrar hafa talað á sama veg í fjölmiðlum, talað um að auka framboð á húsnæði. Framboð, framboð, þau eru loksins búin að fatta þetta. Hvað sjáum við svo í nýframlagðri fjármálaáætlun? Jú, þar sjáum við að ríkisstjórnin ætlar beinlínis að lækka stofnframlög til almenna íbúðakerfisins um 2 milljarða. Þau ætla að lækka framlög ríkisins til húsnæðisuppbyggingar án hagnaðarsjónarmiða um 2 milljarða. Ríkisstjórnin, stjórnarmeirihlutinn hér á Alþingi, fólkið sem er alltaf að tala um framboð, framboð, ætlar beinlínis að framkalla samdrátt í framboði á félagslegu húsnæði með handafli í gegnum fjárlög. Það er planið samkvæmt fjármálaáætlun. Þetta er húsnæðisstefna þessarar ríkisstjórnar. (Forseti hringir.) Þetta sama fólk vogar sér svo að hía alltaf á Reykjavíkurborg, sveitarfélagið (Forseti hringir.) sem ber uppi félagslega húsnæðisuppbyggingu og liðkar til fyrir henni á Íslandi. Það er skömm að þessu.