152. löggjafarþing — 59. fundur,  29. mars 2022.

um fundarstjórn.

[15:15]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Frú forseti. Mér finnst ástæða til að bregðast við orðum hv. þm. Höllu Signýjar Kristjánsdóttur sem kom hingað upp áðan og vildi meina að við værum ekki að ræða fundarstjórn forseta og það sem heyrir undir þann lið. Ég ætla að leyfa mér að vera ósammála því. Það sem við erum að ræða hér er dagskrá þingsins, það sem við erum að gera hér í þessum þingsal. Vegna þess að það er ekki haft samráð við minni hlutann hvað þetta varðar er augljóst að svona fer. Eins og nefnt var áðan, þegar umræðan er ekki tekin á öðrum vettvangi, í okkar ágætu bakherbergjum hér, er þetta eini vettvangurinn sem við höfum til þess að eiga þetta samtal við meiri hlutann. Ég er því ósammála því að við séum ekki að tala um fundarstjórn, við erum sannarlega að gera það. Ég er sammála því að það ætti að vera óþarfi, mjög sammála því. En ég held að meiri hlutinn viti mætavel hvernig hægt er að leysa það þannig að við verjum minni tíma í fundarstjórn. Þá langar mig að segja við hæstv. innviðaráðherra varðandi ummæli hans í fjölmiðlum, (Forseti hringir.) hvort það sé stundum svo að margur haldi mig sig. (Forseti hringir.) Árið 2012 hélt hæstv. innviðaráðherra ræðu í fundarstjórn forseta þar sem hann ræddi um sorpbrennslu (Forseti hringir.) í Skaftárhreppi.