152. löggjafarþing — 59. fundur,  29. mars 2022.

fjarskipti .

461. mál
[15:50]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Það sem um ræðir og var niðurstaða þessarar undirnefndar á síðasta þingi var að bæta setningarhluta inn í 2. mgr. frumvarpsins þar sem segir, með leyfi forseta:

„Telji Póst- og fjarskiptastofnun hættu á að farnetskerfi á landsvísu séu eða geti orðið mjög háð búnaði frá einum framleiðanda er stofnuninni, á grundvelli öryggishagsmuna, heimilt að binda leyfi skv. 27. gr. skilyrðum er stuðla að fjölbreytni í gerð búnaðar eða grípa til annarra viðeigandi ráðstafana.“

Inn í þessa málsgrein var bætt hálfri setningu er sneri að því að öll kerfi fjarskiptaveitenda landsins (Forseti hringir.) yrðu metin heildstætt sem eitt. Það hnykkti á því að þarna væri hægt að tryggja öryggishagsmunina, að kippa út kerfishluta án þess að það þyrfti að gerast hjá hverjum og einum þjónustuveitanda.