152. löggjafarþing — 59. fundur,  29. mars 2022.

fjarskipti .

461. mál
[16:52]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Hvað erum við að vernda með gagnageymdinni? spyr ráðherrann og bendir á að við séum að vernda samfélagið fyrir netglæpum. En með gagnageymd er líka verið að búa til vettvang, það er bókstaflega verið að búa til fjársjóðskistu fyrir netglæpi, gagnasafn hjá hverju einasta fjarskiptafyrirtæki með upplýsingum um öll fjarskipti sem hafa átt sér stað á landinu í hálft ár. Ég held að það séu bara meiri líkur á að þetta verði viðfang netglæpa og verkfæri þeirra heldur en verkfæri til að berjast gegn þeim. Það sem mér þykir kannski sárast við það hvernig þetta mál kemur til okkar er að það er ekkert vikið að þessum álitamálum í greinargerð frumvarpsins, ekki neitt, þó að það hafi einmitt verið bent á þetta í þinglegu umræðunni, sem ráðherrunum þótti hafa verið svo mikil á síðustu tveimur þingum, og þó að á þetta hafi verið bent ítrekað af þingmönnum í umhverfis- og samgöngunefnd.