152. löggjafarþing — 59. fundur,  29. mars 2022.

fjarskipti .

461. mál
[17:19]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég byrja kannski bara á síðustu spurningunni. Nei, ég hef aldrei heyrt af þessu númeri og aldrei séð það. Ég þykist vita að þetta sé kannski ekki eitt þeirra símanúmera sem koma strax upp í huga fólks við þessar aðstæður. Ég veit hins vegar að lögreglan er öllum aðgengileg í gegnum sitt almenna númer. Nema þessu fylgi einhver kynningarstarfsemi eða eitthvað í þá veru hugsa ég að það verði nú kannski að meginstefnu óbreytt ástand varðandi hvernig fólk nálgast lögregluna, sem er reyndar líka í gegnum netið núorðið.

Varðandi hina spurninguna, þ.e. um stöðu og aðstæður fólks, ekki síst á landsbyggðinni, sem er í raunverulegri og eiginlegri hættu á því að verða fyrir rofi á þjónustu, grundvallarþjónustu, þá er mjög aðkallandi verkefni fyrir land eins og Ísland að tryggja það alltaf. Ég sé að í 100. gr. er gerð tilraun til þess að ráðherra geti við þær aðstæður mælt fyrir um aðgerðir til að viðhalda þessari rekstrarsamfellu þjónustunnar.

Ég hefði líka áhuga á að heyra um það frá hæstv. ráðherra hvaða stefna sé í vinnu inni í ráðuneytinu almennt séð og til lengri tíma litið hvað þetta varðar vegna þeirra aðstæðna sem við búum við hér á Íslandi. Ég þykist fullviss um að þau mál séu öll almennt séð í forgangi og í nokkuð góðum farvegi.